Erlent

Fáir Svíar dæmdir fyrir barnaklám

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Sá sem hleður niður barnaklámi getur átt á hættu jafnlanga fangelsisvist og sá sem truflar guðsþjónustu.
Sá sem hleður niður barnaklámi getur átt á hættu jafnlanga fangelsisvist og sá sem truflar guðsþjónustu. NORDICPHOTOS/AFP
Fimmtán þúsund Svíar hafa undanfarið ár hlaðið niður hreyfimyndum af nauðgunum á börnum og annars konar kynferðisofbeldi gagnvart þeim, að því er rannsókn Sænska Dagblaðsins og Aftonbladet sýnir.

Haft er eftir yfirmanni hjá lögreglunni að vitað sé að brotin eru miklu fleiri. Aðeins 119 voru dæmdir árið 2015, þar af 20 í fangelsi. Samkvæmt sænskum lögum er bannað að hafa undir höndum barnaklám, dreifa því og horfa á það.

Lögreglan segir að í lögunum sé litið svo á að ekki sé um neinn málseiganda að ræða þegar efninu er hlaðið niður. Litið er svo á að um sé að ræða brot gegn ríkinu en ekki börnunum sem beitt eru ofbeldinu. Hætta sé þess vegna á að málin séu lögð niður eða fyrnist.

Hámarksrefsing fyrir það sem metið er vægt barnaklám er sex mánaða fangelsi. Sá sem truflar guðsþjónustu getur átt á hættu jafnlanga fangelsisvist. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×