Innlent

Færri dómara og færri mál til að efla réttinn

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi hæstaréttardómari kallar eftir samstöðu um fækkun dómara við Hæstarétt og að færri mál rati þangað vegna álags á réttinn. Hann gagnrýnir harðlega að tími málflutnings hafi verið skorinn niður hjá réttinum.

Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari hélt erindi í Háskólanum í Reykjavík í gær um Hæstarétt Íslands og þær breytingar sem hann telur nauðsynlegar á starfsumhverfi réttarins.

Jón Steinar telur að Hæstiréttur sinni ekki hlutverki sínu sem eiginlegur Hæstiréttur vegna álags sem er á réttinum en hann hefur gagnrýnt starfsskilyrði réttarins. Bæði í ritgerðinni Veikburða Hæstiréttur og ævisögu sinni, Í krafti sannfæringar.

„Ég tel að það sé brýnast að skapa réttinum starfsskilyrði til þess að geta unnið sín verk á vandaðan og yfirvegaðan hátt og hafa nægan tíma til þess. Þetta er ekki nýtt en þetta hefur verið sífellt vaxandi vandi um langt árabil. Það má sjá í verkum dómstólsins að þetta versnar alltaf. Núna síðast sýnist mér að dómararnir hafi lítinn áhuga á að hlusta á málflutning málsaðila fyrir dómi. Það er eins og reynt sér að skera hann niður eins og hægt er, sem er ný þróun og þetta gengur ekki lengur,“ segir Jón Steinar. 

Innanríkisráðherra er staðráðin í því að leggja fram frumvarp um millidómstig en vonir eru bundnar við að með því verði Hæstiréttur eiginlegur Hæstiréttur og þangað rati einungis stærri fordæmisgefandi mál en í frumvarpsdrögum er gert ráð fyrir að dómurum við réttinn verði fækkað úr níu í sex.  


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×