Innlent

Fækkun háskólanema í samræmi við áform stjórnvalda um gæði

Samúel Karl Ólason skrifar
Ísak Rúnarsson, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
Ísak Rúnarsson, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Vísir/GVA
Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 segir að framlög til Háskóla Íslands miði að því að nemendum verði fækkað um 499. Þá segir að það sé í samræmi við áform ráðuneytisins varðandi gæði náms og þjónustu skólanna við nemendur.

Ísak Rúnarsson, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, segir þetta skjóta skökku við.

„Það er merkilegt að þetta sé sett upp sem svo. Að fækkun nemenda sé í samræmi við áform ráðuneytisins um gæðamál,“ segir Ísak.

„Ef maður leggur saman það sem var gert varðandi lánasjóðinn í fyrra. Þegar námsframvindukröfur voru auknar. Maður spyr sig hvort ætlunin hafi hreinlega verið að bola stúdentum úr námi. Að þeim myndi fækka í samræmi við þessi áform.“

Í fjárlagafrumvarpinu stendur: „Í frumvarpinu er framlag til kennslu miðað við 13.536 ársnemendur samanborið við 14.035 í fjárlögum yfirstandandi árs. Þetta er fækkun um 499 ársnemendur eða sem nemur 3,7% og er í samræmi við áform ráðuneytisins um að leggja áherslu á að viðhalda gæðum náms og þjónustu skólanna við nemendur.“

„Við óskum eftir svörum um þetta frá ráðherra,“ segir Ísak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×