Fastir pennar

Evrópuvæðing án áhrifa

Ólafur Stephensen skrifar
Í síðustu viku kom út viðamikil skýrsla á vegum norskra stjórnvalda, þar sem samningum Noregs við Evrópusambandið er lýst. Sú skýrsla er um leið að verulegu leyti lýsing á sambandi Íslands við ESB, því að marga samninga við ESB eiga Ísland og Noregur sameiginlega.

Þar er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið klárlega viðamestur. Norska nefndin sem skoðaði málið kemst að þeirri niðurstöðu að EES og aðrir samningar Noregs við ESB hafi falið í sér umfangsmikla „Evrópuvæðingu" Noregs, á miklu fleiri sviðum en flesta gruni og meðal annars hafi það komið nefndinni, sem þó var skipuð færustu sérfræðingum, á óvart hversu aðlagað norskt samfélag og löggjöf sé orðið því sem gerist í ESB. Það helgist þó ekki sízt af þörfinni á því að finna sameiginlegar lausnir á vandamálum og viðfangsefnum sem ekki virða landamæri og það útheimti skuldbindandi alþjóðlegt samstarf. Grundvöllur samstarfsins sé að Noregur deili bæði gildum og hagsmunum með ESB-ríkjunum 27. Óhætt er að fullyrða að það sama eigi við um Ísland.

Nefndin telur EES-samninginn hafa þjónað hagsmunum Noregs vel, en vandamálið við hann sé fyrst og fremst lýðræðislegt; Noregur hafi skuldbundið sig til að hlíta bæði stefnu Evrópusambandsins og lagasafni þess á mjög breiðu sviði, án þess að hafa aðild að ESB eða atkvæðisrétt innan sambandsins. „Þetta er það verð sem Noregur greiðir fyrir að njóta ávinningsins af evrópskum samruna án þess að vera meðlimur í þeim samtökum sem knýja áfram þróunina," segir í norsku skýrslunni.

Það sama á að sjálfsögðu við um Ísland. Þeir sem tala gegn aðild Íslands að ESB vegna lýðræðishallans svokallaða, sem felst í því að stofnanir sambandsins aðrar en Evrópuþingið sækja ekki umboð sitt beint til borgaranna, gleyma yfirleitt að geta þess að Ísland býr við tvöfaldan lýðræðishalla. Alþingi samþykkir löggjöf sem það fær senda í pósti frá Brussel án þess að hafa á hana nokkur áhrif.

Hér eins og í Noregi á það við að áhrif samninga við ESB eru víðtækari en flestir átta sig á og eða sáu fyrir er EES-samstarfið hófst fyrir bráðum tveimur áratugum. Á sínum tíma komst nefnd lögfræðinga að því að það framsal íslenzks ríkisvalds, sem fælist í EES-samningnum, væri ekki stjórnarskrárbrot vegna þess að það væri á „afmörkuðu sviði". Þegar horft er til baka á þau gríðarlegu áhrif sem samningurinn hefur haft hér á landi er nánast útilokað að sú túlkun standist. Þeir sem halda því fram að með aðild að ESB yrði mikil eðlisbreyting á íslenzkri löggjöf og samfélagi eru tuttugu árum eða svo á eftir tímanum. Breytingin er þegar orðin, Evrópuvæðingin er ótrúlega víðtæk. Vandinn er sá að við höfum minna um hana að segja en við ættum að gera.

Með aðild að ESB fengi Ísland bein áhrif á ótal ákvarðanir, sem snerta íslenzka hagsmuni og verða sjálfkrafa hluti af íslenzkri löggjöf. Það er rangtúlkun að halda því fram að aðild að ESB feli í sér missi áhrifa og fullveldis. Þvert á móti myndi hún styrkja lýðræðið og hafa í för með sér að Ísland hefði meiri áhrif á eigin örlög.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×