Erlent

Evrópubúar óttast fordæmið frá Kýpur

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Almenningur hefur harðlega mótmælt áformum um skatt á bankainnistæður.	fréttablaðið/AP
Almenningur hefur harðlega mótmælt áformum um skatt á bankainnistæður. fréttablaðið/AP
Áform Kýpurstjórnar um að leggja skatta á innistæður í bönkum, að kröfu Evrópusambandsins, hefur vakið ótta víða meðal íbúa í aðildarríkjum sambandsins.

Bæði evran og verðbréf á mörkuðum á evrusvæðinu lækkuðu töluvert í verði í gær, jafnvel þótt stærð hagkerfisins á Kýpur sé ekki nema 0,2 prósent af samanlagðri stærð hagkerfa allra evruríkjanna 17.

„Skaðinn er skeður," segir breski fjármálaskýrandinn Louise Cooper, sem bloggar á vefsíðunni coopercity.co.uk. „Evrópubúar vita núna að hægt er að nota sparnað þeirra til að bjarga bönkunum."

Evrópusambandið samþykkti um helgina að útvega Kýpurstjórn 15,8 milljarða evra, eða ríflega 2.500 milljarða króna, til að bjarga bönkum á Kýpur frá falli.

ESB setti það skilyrði að Kýpurstjórn útvegaði viðbótarfjármagn í ríkissjóðinn á móti, og féllst á að stjórnin fengi það fé með því að innheimta skatt af innistæðum í kýpversku bönkunum.

Þetta er í fyrsta sinn sem ESB tekur það í mál að seilast í vasa viðskiptavina banka til að fjármagna neyðaraðstoð af þessu tagi.

Frumvarp um málið átti að bera undir Kýpurþing á sunnudag, en því hefur verið frestað í tvígang. Síðdegis í gær var stefnt á að þingið greiddi atkvæði í dag.

Kýpurstjórn hefur notað frestinn til að reyna að breyta skilmálum aðstoðarinnar, þannig að hægt verði að hlífa smærri innistæðum betur en upphaflega stóð til.

Upphaflega hugmyndin var að leggja 6,75 prósenta skatt á þær innistæður sem eru lægri en 100 þúsund evrur en á hærri innistæður yrði skattprósentan 9,9.

Í gær var hugmyndin sú að leggja þriggja prósenta skatt á innistæður sem eru lægri en 100 þúsund evrur en síðan yrði skattprósentan hækkuð upp í 15 prósent á innistæður sem eru hærri en 500 þúsund evrur.

Talsmenn Seðlabanka Evrópusambandsins segjast ekki ætla að gera athugasemdir við það. Aðalatriðið sé að Kýpurstjórn takist að útvega 5,8 milljarða evra á móti neyðarframlagi ESB.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×