Enski boltinn

Everton með þrefaldan Evrópudeildarmeistara í sigtinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Emery hefur gert Sevilla að Evrópudeildarmeisturum þrjú ár í röð.
Emery hefur gert Sevilla að Evrópudeildarmeisturum þrjú ár í röð. vísir/getty
Everton mun hefja viðræður við Unai Emery, knattspyrnustjóra Sevilla, um að taka við liðinu í sumar. Þetta kemur fram í frétt the Telegraph.

Everton er í stjóraleit eftir að Roberto Martínez var sagt upp störfum á dögunum. Everton olli miklum vonbrigðum á nýafstöðnu tímabili og endaði í 11. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Emery hefur gert frábæra hluti með Sevilla en í síðustu viku vann liðið Evrópudeildina þriðja árið í röð eftir 3-1 sigur á Liverpool í úrslitaleik. Sevilla komst einnig í úrslit spænsku bikarkeppninnar en tapaði 2-0 fyrir Barcelona í úrslitaleik í gær.

Hinn 43 ára gamli Emery hefur einnig stýrt Lorca Deportiva, Almería, Valencia og Spartak Moskvu.

Everton er einnig með Ronald Koeman, knattspyrnustjóra Southampton, og Frank De Boer, fráfarandi stjóra Ajax, í sigtinu að því er fram kemur í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×