Fótbolti

Étinn af krókódílum á miðri æfingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Ungur fótboltamaður frá Mósambík skilaði sér aldrei heim frá fótboltaæfingu en félag hans hefur greint frá skelfilegum örlögum hans.

Hinn nítján ára gamli Estevao Alberto Gino spilaði fyrir 2. deildarfélagið Atletico Mineiro de Tete og var að æfa á bökkum Zambezi árinnar.

Gino varð fórnarlamb krókódílaárásar og hvorki hann né aðrir gátu hönd við reist þegar risastór krókódíll náði í strákinn.  

„Þetta kvöld var hann að æfa og eftir að hafa skokkað þá teygði hann höndina í vatnið. Það var þá sem krókadíllinn náði í hann,“ sagði þjálfari hans Eduardo Carvalho við AFP.

Tveir nágrannar urðu vitni að árásinni og giskuðu á að krókódíllinn sem tók hann hafi verið um fimm metrar á lengd.

Krókódílaárásir eru algengar í Zambezi ánni. Lögreglan á staðnum hefur staðfest fréttirnar en segja að lík Estevao Alberto Gino hafi ekki fundist ennþá.

Mósambík er í suðaustur Afríku með landamæri að Suður-Afríku, Svasílandi, Tansaníu, Malaví, Sambíu og Simbabve. Landslið Mósambík er eins og er í 105. sæti á styrkleikalista FIFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×