Viðskipti erlent

ESB gefur Færeyingum mánaðarfrest í síldardeilunni

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti í dag að Færeyingar hefðu eins mánaðar frest til að svara ESB um hvort þeir ætluðu að endurskoða ákvörðun sína um stóraukinn kvóta úr síldarstofninum í Norður Atlantshafi.

Í frétt um málið á vefsíðu börsen segir að ef svar komi ekki innan þessa fresta munu refsiaðgerðir ESB á hendur Færeyingum taka gildi. Þær fela m.a. í sér bann á sölu á færeyskri síld og síldarafurðum innan ESB sem og löndunarbann á færeysk síldarskip í öllum höfnum sambandsins.

Deila þessi hefur staðið frá því í desember í fyrra. Þá ákváðu Færeyingar að segja sig frá samningaviðræðum um síldaveiðar í Norður Atlantshafi. Auk þeirra og ESB áttu Íslendingar, Norðmenn og Rússar aðild að þessum viðræðum. Í framhaldinu ákváðu Færeyingar einhliða að auka síldarkvóta sinn um 145% frá þeim kvóta sem þeir höfðu fengið árið áður.

Hinar þjóðirnar, og ESB, höfðu áður ákveðið að skera síldarkvótann niður um 26% en það var talið nauðsynlegt til þess að viðhalda stofninum í þeirri stærð sem hann er núna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×