Innlent

ESA samþykkir byggðakortið

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Miklar áætlanir eru um nýsköpun á Siglufirði.
Miklar áætlanir eru um nýsköpun á Siglufirði. Fréttablaðið/vilhelm
ESA, eftirlitsstofnun EFTA, samþykkti í gær svokallað byggðakort fyrir Ísland, það er tillögu Íslands um svæði þar sem veita má byggðaaðstoð á tímabilinu 1. júlí 2014 til 31. desember 2020.

Í frétt á vef ESA segir að kortið skilgreini þau svæði þar sem leiðbeiningarreglur ESA um byggðaaðstoð gilda. Samkvæmt kortinu er landinu skipt upp í tvö svæði, höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina, þar sem 35,9 prósent þjóðarinnar búa. Tekið er fram að samþykki ESA feli ekki í sér samþykki á ríkisaðstoð.

Í frumvarpi til laga um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi, sem lagt var fram á Alþingi í vetur, segir í sjöundu grein að ívilnun á grundvelli byggðaaðstoðar geti að hámarki numið 15 prósentum af skilgreindum fjárfestingarkostnaði þess fjárfestingarverkefnis sem sótt er um ívilnun fyrir.

Fyrir meðalstór fyrirtæki sé hámark ívilnunar 25 prósent af fjárfestingarkostnaði og fyrir lítil fyrirtæki sé hámark ívilnunar 35 prósent af fjárfestingarkostnaði.

Sá sem sækir um ívilnun skal sýna fram á að án þeirra verði fjárfestingin ekki arðbær. Ívilnanir skuli aðeins boðnar umsækjanda ef útreikningar gefa með skýrum hætti til kynna að fyrirhuguð fjárfesting hafi í för með sér jákvæð áhrif á þróun byggðar jafnt til lengri sem skemmri tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×