Skoðun

Erum við á réttri leið?

Guðrún Helga Bjarnadóttir skrifar
Ég hef velt því fyrir mér síðustu misseri hvort við erum örugglega á réttri leið í forvörnum gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum. Samtökin sem ég hef starfað fyrir frá 2009 heita samtökin Blátt áfram – forvarnarverkefni. Þau hafa lagt höfuðáherslu á að fræða fullorðna fólkið. Fræðslan gengur út á að finna leiðir til að koma í veg fyrir ofbeldi. Þetta kallast fyrsta stigs forvörn og er alfarið byggt á ábyrgð hins fullorðna.

Síðustu tvö árin hef ég tekið eftir aukinni áherslu fólks á að fræða börnin, sem er vel. En þessi áhersla virðist ekki haldast í hendur við að fræða fullorðna, kennara, foreldra og aðra sem koma að uppeldi og fræðslu barna. Því spyr ég mig;  Er rétt að leggja þá ábyrgð á börn að þau eigi að vita hvert á að leita, þau eigi að vita hvar mörk liggja og þau eigi að vita hvernig þau eiga að bregðast við?  Eru hinir fullorðnu undir það búin að taka rétt á móti þessum börnum?  Ég spyr mig líka hvort of mikil áhersla sé lögð á að sinna börnunum EFTIR að brot hafa átt sér stað, eða viljum við allt til vinna að brotin eigi sér alls EKKI stað.

Þar liggur munurinn.  Hinir fullorðnu, hinir eldri og/eða hinir sterkari eru þau sem fremja brot á börnum. Skilaboðin eiga fyrst og fremst að ná til þeirra. Þið berið ábyrgðina, ekki börnin. Það er ykkar að gera allt sem í ykkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að ofbeldi eigi sér stað.

Ég sé ekki að við Íslendingar séum að sinna því nægjanlega vel.  Samtökin Blátt áfram hafa síðustu 7 árin boðið upp á námskeið, námskeiðið Verndara barna, sem snýst fyrst og fremst um að koma í veg fyrir að kynferðislegt ofbeldi eigi sér stað.  Þar sem erfitt er að koma í veg fyrir að allt ofbeldi eigi sér stað, er í öðru lagi unnið með viðbrögð hins fullorðna. Hvernig eigum við að bregðast við? Hvert leitum við? Hvað svo? Liggur þetta ekki í augum uppi? Er þetta ekki það sem er mikilvægast?  Er eðlilegt að fræða börn frá leikskólaaldri um kynferðisofbeldi, benda þeim á hvað þau geta gert ef eða þegar þau eða einhver sem þau þekkja hafa orðið fyrir því, ef hinir fullorðnu eru ekki undir það búin að bregðast rétt við? Er eðlilegt að fræða börn um þeirra persónulegu mörk og einkastaðina til að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi eða hvaða ofbeldi sem er, ef hinir fullorðnu vita ekki hvað forvörn er eða hvað hjálpar barninu ef þetta er ekki virt?

Kæru foreldrar, kennarar, þjálfarar, ömmur og afar. Takið ábyrgðina í ykkar hendur. Ekki bíða eftir að eitthvað slæmt gerist fyrir börnin í ykkar lífi. Sautján prósent barna verður fyrir kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára aldur (Hrefna Ólafsdóttir, 2011)  það er sú staðreynd sem blasir við. Það gæti verið þitt barn eða barn í þinni umsjá. Hjálpið okkur að stöðva þennan faraldur sem hefur fengið að geisa frá örófi alda.  Skoðið hvaða fræðsla er í boði og takið næsta skref – í þágu barnanna – með stuðningi við Verndara barna og þátttöku í árangursríku forvarnarstarfi þeirra.




Skoðun

Sjá meira


×