Skoðun

Eru háskólaritgerðir kvöð eða tækifæri?

Erik Christianson Chaillot skrifar
Í háskólanámi er oft gerð krafa um skil lokaritgerðar, hvort sem er á grunn-, meistara- eða doktorsstigi. Þessar ritgerðir eru viðamiklar og gríðarlega mikil vinna liggur að baki ef vandað er til verka.

Sjálfur hef ég kynnst því vel hversu mikill munur getur verið á jafnt þeirri vinnu sem nemendur leggja í ritgerðirnar sjálfar sem þeirri hugmyndavinnu sem á sér stað áður en ritgerðarefni er valið.

Á meðan sumir reyna að komast auðveldlega frá þessu leggja aðrir mikinn metnað í verkið. Oft velja nemendur ekki sjálfir ritgerðarefni heldur fá það úthlutað frá leiðbeinanda sínum. Þá er ritgerðin alla jafna rituð við lok náms og námsleiði því stundum farinn að hrjá nemendur sem gerir að verkum að þeir reyna að ljúka ritgerðinni í flýti til að ná útskrift.

Við ritgerðarskrif fer oft mikill tími í heimildaöflun og fjöldi fræðigreina, bóka og ritgerða lesnar til að fá betri og dýpri innsýn í ritgerðarefnið. Það getur því auðveldað vinnuna talsvert ef nemendur hafa áhuga á viðfangsefni sínu og um leið er gott að hafa í huga að þekkingin getur komið að kærkomnu gagni síðar.

Að skera sig úr fjöldanum

Það ríkir gríðarleg samkeppni á vinnumarkaði og kröfur til umsækjenda eru miklar. Það getur því reynst erfitt fyrir nýútskrifaða háskólanemendur að skera sig úr fjöldanum og öðlast atvinnutækifæri. Fagleg starfsreynsla nýútskrifaðra er oftar en ekki lítil sem engin og áhersla viðkomandi í atvinnuumsóknum fyrir vikið á menntun, meðmæli, gáfnafar og aðra persónulega eiginleika.

Þarna getur lokaritgerðin komið að góðum notum sem möguleg tenging við atvinnuveitanda og jafnvel ráðið úrslitum um hvort viðkomandi hlýtur starfið.

Tökum dæmi: Lögfræðistofa leitar að lögfræðingi til starfa á sviði félagaréttar. Valið stendur á milli tveggja nýútskrifaðra lögfræðinga sem heita Jón og Gunnar. Hvorugur þeirra hefur starfsreynslu, þeir eru með svipaðar námseinkunnir, eru báðir mjög áhugasamir og stóðu sig jafn vel í viðtali.

Eini sjáanlegi munurinn á umsækjendunum er sá að Jón skrifaði lokaritgerðina sína á sviði félagaréttar en Gunnar um eitthvað allt annað. Þessi munur kemur því til með að hjálpa Jóni í samanburðinum og gæti jafnvel orðið til þess að hann fái starfið.

Mín ráð til háskólanemenda eru því þessi; Ekki líta á lokaritgerðina sem kvöð, eitthvað sem þú gerir einungis vegna þess að þú „verður“ að gera það. Áður en ritgerðarefni er valið mæli ég með því að nemendur velti vel fyrir sér hvað þeim þyki áhugavert, við hvað þeir væru til í að starfa og hvað gæti mögulega nýst þeim þegar á vinnumarkaðinn er komið.

Einnig er sniðugt að hafa samband beint við fyrirtæki hafi nemendur áhugaverð lokaverkefni sem geta nýst þeim og þannig komið sjálfum sér á framfæri og myndað tengsl.

Það mun mikill tími og vinna fara í þetta verkefni sem lokaritgerðin er og aldrei að vita nema hægt sé að uppskera starf fyrir vikið. Það er því eins gott að vanda vel til verka og líta á ritgerðina sem tækifæri til að aðgreina sig og jafnvel skara fram úr.

Erik Christianson Chaillot, ráðgjafi Capacent á sviði stefnumótunar og mannauðs




Skoðun

Sjá meira


×