Handbolti

Erfitt kvöld í Frakklandi | Hvað gerðu Íslendingarnir í Evrópuboltanum?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stefán Rafn fagnar einu marka sinna fyrir Löwen í kvöld.
Stefán Rafn fagnar einu marka sinna fyrir Löwen í kvöld. Vísir/Getty
Fjöldi Íslendinga var í eldlínunni með liðum sínum í evrópsku deildunum í handbolta í kvöld. Aron Kristjánsson og Alfreð Gíslason eru á góðu skriði með lið sín.

Stefán Rafn Sigurmannsson fór mikinn er Rhein-Neckar Löwen náði tveggja stiga forystu á toppi þýsku deildarinnar í kvöld og þá tók Guðjón Valur Sigurðsson þátt í afar öruggum sigri Barcelona á botnliði spænsku úrvalsdeildarinnar.

Það gekk ekki eins vel í frönsku úrvalsdeildinni þar sem öll þrjú Íslendingaliðin töpuðu sínum leikjum í kvöld.

Meistaradeild Evrópu:

Kiel, lið Alfreðs Gíslasonar, vann öruggan sigur á Croatia Zagreb, 34-27, á heimavelli í kvöld. Steffen Weinhold skoraði níu mörk fyrir Kiel en Aron Pálmarsson var ekki með í kvöld vegna meiðsla.

Kiel er á toppi A-riðils með tólf stig af fjórtán mögulegum. PSG kemur næst með átta stig en á leik til góða.

Úrslit kvöldsins:

A-riðill: Kiel - Croatia Zagreb 34-27

D-riðill: Motor Zaporozhye - Pick Szeged 25-29

Þýska úrvalsdeildin:

Stefán Rafn Sigurmannsson var markahæstur í liði Rhein-Neckar Löwen, ásamt línumanninum Bjarte Myrhol, með sex mörk er liðið hafði betur gegn Friesenheim, 30-22. Alexander Petersson skoraði fjögur mörk fyrir Löwen sem heldur toppsæti þýsku deildarinnar. Ljónin eru nú með tveggja stiga forystu á Kiel sem á leik til góða.

Füchse Berlin, lið Dags Sigurðssonar, hafði betur gegn Bietigheim á útivelli og komst þar með upp í fimmta sæti deildarinnar þar sem liðið er með átján stig.

Arnór Gunnarsson sokraði eitt mark fyrir Bergischer HC sem tapaði naumlega fyrir Hamburg á útivelli, 21-20. Björgvin Páll Gústavsson stóð í markinu hjá Bergischer en sigurmark leiksins skoraði danski landsliðsmaðurinn Hans Lindberg á lokasekúndunum.

Bergischer er í ellefta sæti þýsku deildarinnar með fimmtán stig að loknum sextán leikjum.

Úrslit kvöldsins:

Friesenheim - Rhein-Neckar Löwen 22-30

Lemgo - Flensburg 26-30

Melsungen - Minden 35-25

Hamburg - Bergischer HC 21-20

Bietigheim - Füchse Berlin 22-24

Danska úrvalsdeildin:

KIF Kolding Köbenhavn vann enn einn sigurinn í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld. Í þetta sinn mætti liðið Team Tvis Holstebro og vann með fimm marka mun, 24-19. Aron Kristjánsson er þjálfari KIF sem er efst í deildinni með 27 stig af 28 mögulegum.

Ólafur Gústafsson skoraði ekki fyrir Álaborg sem vann SönderjyskE, 28-24. Álaborg er í þriðja sætinu með nítján stig

Úrslit kvöldsins:

Skjern - Ribe-Esbjerg 37-25

Team Tvis - KIF 19-24

Aalborg - SönderjyskE 28-24

Franska úrvalsdeildin:

Ásgeir Örn Hallgrímsson skoraði eitt mark fyrir Nimes sem tapaði fyrir Aix, 28-24, á heimavelli í kvöld. Ásgeir tók fjögur skot í leiknum.

Arnór Atlason skoraði þrjú mörk úr átta skotum er Saint Raphael tapaði á útivelli fyrir Chambery, 29-26.

Snorri Steinn Guðjónsson skoraði fjögur mörk, öll af vítalínunni, er Selestat tapaði fyrir Toulouse, 26-22, á heimavelli. Snorri tók fimm skot utan af velli en klikkaði á öllum þeirra.

Úrslit kvöldsins:

Chambery - Saint Raphael 29-26

Nimes - Aix 24-28

Istres - Cesson Rennes 22-26

Selestat - Toulouse 22-26

Spænska úrvalsdeildin:

Barcelona kjöldró botnlið Gijon, 40-25, á heimavelli sínum í kvöld. Guðjón Valur Sigurðsson nýtti öll skotin sín í leiknum og skoraði alls sex mörk, þar af þrjú úr hraðaupphlaupum. Barcelona er enn með fullt hús stiga á toppi deildarinnar eftir ellefu leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×