Fótbolti

Er vegabréfið hans Thomas Müller líka sími? | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas Müller.
Thomas Müller. Mynd/Samsett
Þýsku fjölmiðlamennirnir lýstu þessu fyndna atviki sem „dæmigerðum Thomas Müller“ en margir á samfélagsmiðlunum eru búnir að brosa af uppátæki hans í gær.

Þýski landsliðsmaðurinn Thomas Müller lenti þá með félögum sínum í Bayern á flugvellinum í München eftir æfingaferð Bayern München liðsins til Katar.

Það er vetrarfrí í Þýskalandi og liðin nota flest tækifærið og fljúga suður í sól og sumar til að undirbúa sig fyrir seinni hluta tímabilsins.  

Thomas Müller hefur átt mjög erfitt og pirrandi tímabil og þýsku fjölmiðlamennirnir vildu endilega tala við kappann enda margir að velta því fyrir sér hvort að hann sé á förum.

Müller fann hinsvegar leið til að forðast öll viðtöl þegar hann gekk í fangið á öllum fjölmiðlamönnunum.

Thomas Müller þóttist vera að tala í símann sinn en þegar betur var að gáð kom í ljós að hann var að tala í vegabréfið.

Müller brosti síðan til blaðamannanna um leið og hann gekk framhjá þeim og öll viðtöl voru úr sögunni.

Thomas Müller hefur aðeins skorað eitt mark á tímabilinu og Carlo Ancelotti var með hann á varamannabekknum í mikilvægum leikjum í desember á móti Atletico Madrid í Meistaradeildinni og á móti RB Leipzig í toppslag þýsku deildarinnar.

Hér fyrir neðan má sjá myndband með atvikinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×