Skoðun

Er hefð að níðast á lífeyrisþegum?

Guðmundur Magnússon skrifar

Samkvæmt frétt í Fréttablaðinu 20. nóvember 2015 hækka grunnlaun þingmanna um 60.585 krónur í alls 712.030 krónur og fá þeir eingreiðslu upp á 545.265 krónur þar sem hækkunin er afturvirk. Þá hækka grunnlaun ráðherra, fyrir utan forsætisráðherra, um 106.991 krónu, í 1.257.425 krónur, með eingreiðslu upp á 962.919 krónur. Laun forsætisráðherra hækka um 118.384 krónur, í 1.391.333 krónur, með eingreiðslu upp á 1.065.456 krónur. Loks hækka laun forseta Íslands um 196.962 krónur, í 2.314.830 krónur, með eingreiðslu upp á 1.772.658 krónur.

Blessaðir mennirnir, ekki seinna vænna að hækka við þá kaupið og mikið kemur það nú sér vel að hækkunin skuli vera afturvirk svona rétt fyrir jólin. Reyndar sker það í augu að hækkun forseta okkar skuli vera næstum upp á krónu jafn mikil og margur lífeyrisþeginn er með á mánuði, til að greiða fyrir húsnæði, fæði og klæði, að ekki sé talað um menningarneyslu eða til að halda gleðileg jól, svo eitthvað sé nefnt.

Árum saman hefur löggjafinn hækkað lífeyrisgreiðslur í fjárlögum eins lítið og hægt er samkvæmt lögum sem kveða þó á um að lífeyrisgreiðslur skuli hækka samkvæmt launaþróun, eða framfærsluvísitölu, eða þeirri sem er hærri í það skiptið. Nær aldrei afturvirkt, en þá skorið við nögl og aldrei að fullu.

Það er segin saga, að þegar lífeyrisþegar óska eftir kjarabótum bregðast stjórnvöld við eins og nú eigi að setja samfélagið á hausinn, en telja það sjálfsagða sanngirniskröfu að hækka sín eigin laun og þeirra sem greiða mest í sjóði flokkanna. Hafa menn ekki veitt því eftirtekt að fátækt fer í vöxt á Íslandi? Á sama tíma sem auðmenn virðast færast í aukana einna líkast og var fyrir hrunið, sem vel að merkja kom fyrst og harðast niður á lífeyrisþegum og láglaunafólki. Hvernig væri að láta hækkanir Kjararáðs einnig ná til lífeyrisþega, afturvirkt og ekki fara í talnaleiki og úrtölur til að skerða kjör þess fólks sem mest hefur verð níðst á síðustu áratugi.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×