Skoðun

Er flokkun heimilissorps óþörf?

Björn Guðbrandur Jónsson og Hjálmar Hjálmarsson skrifar
Eins og fram hefur komið í fréttum hefur kærunefnd útboðsmála stöðvað samningsgerð byggðasamlagsins Sorpu við danskt fyrirtæki um byggingu á gas- og jarðgerðarstöð.

Það kemur ekki á óvart því með þessa ráðagerð hefur verið farið leynt, eins og það komi engum í samfélaginu við hvernig stór framkvæmd eins og þessi er hugsuð, hönnuð og framkvæmd. Ráðgerður kostnaður er þó upp á 2,7 milljarða króna.

Það sem vekur furðu okkar við þessi áform Sorpu er hinn einbeitti vilji fyrirtækisins til að sniðganga þátttöku almennings við nýja hætti við meðferð lífræns sorps. Nú ber að taka fram að upplýsingar um gas- og jarðgerðarstöðina eru fengnar úr fjölmiðlum því þær hefur ekki verið að finna á heimasíðu Sorpu. Samkvæmt fréttum þá hefur Sorpa valið einhverja ákveðna tæknilausn af því „…að hún sé eina lausnin sem uppfylli markmið byggðasamlagsins um meðhöndlun lífræns heimilissorps, en tæknin gerir sorpflokkun óþarfa.“ (tilvitnun í frétt í Fréttablaðinu 20. okt. 2014). Hér vaknar sú krafa að byggðasamlag sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins útskýri opinberlega, af hverju beri að forðast flokkun á lífrænu heimilissorpi.

Flokkun heimilissorps byggir aðeins að litlu leyti á tæknilausnum, hún reiðir sig meir á mannlega þáttinn, hugarfar og þátttöku. Mikilsvert er að flokkun heimilissorps gerir almenningi kleift að taka virkan þátt í lausn á vandamálum sem knýja á í samtíma okkar. Sú reynsla sem hefur orðið til hérlendis varðandi flokkun lífræns heimilissorps gefur ekki tilefni til að vantreysta almenningi. Þvert á móti virðist sem fólk sé almennt reiðubúið til að taka á sig þá litlu fyrirhöfn í eldhúsinu, sem því fylgir að aðgreina lífrænt frá ólífrænu.

Með því að hunsa þær sterku vísbendingar er almenningur og samfélagið allt snuðað um býsna ánægjulega og gagnlega upplifun í hversdeginum, nokkuð sem þátttakendur í slíku fyrirkomulagi hafa margoft vitnað um. Það er ekki boðlegt að svo stór ákvörðun, (sbr. „…tæknin gerir sorpflokkun óþarfa.“) skuli eftirlátin þröngum hópi teknókrata, án þess að um það hafi farið fram nein marktæk umræða og án þess að kjörnir fulltrúar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu hafi látið neitt til sín taka.




Skoðun

Sjá meira


×