Lífið

Er algjör sökker fyrir hvatningarorðum

Guðný Hrönn skrifar
Þóra Hrund Guðbrandsdóttir er þeirrar skoðunar að gott skipulag sé lykillinn að velgengni.
Þóra Hrund Guðbrandsdóttir er þeirrar skoðunar að gott skipulag sé lykillinn að velgengni. Vísir/Eyþór
Þóra Hrund Guðbrandsdóttir, annar eigandi Munum útgáfu, hefur tileinkað sér gott skipulag enda rekur hún bæði heimili og fyrirtæki ásamt því að starfa sem verkefnastjóri hjá þjónustufyrirtækinu CP Reykjavík. Þóra lumar á ýmsum góðum ráðum sem tryggja hámarksafköst og góða nýtingu tímans og þannig verður til meiri frítími.

Það hefur reynst Þóru vel að skipuleggja árið lauslega fram í tímann í janúar. „Þá finnst mér gott að hugsa um það sem mig langar til að gera það árið, bæði hvað varðar mig persónulega og í tengslum við atvinnu. Það er svo gaman að hafa eitthvað til að hlakka til. Síðan skipulegg ég hvern mánuð, viku og dag fyrir sig lauslega,“ segir Þóra sem hefur lagt mikla áherslu á að skipuleggja sig vel síðustu tíu ár. „En svo hef ég lagt enn þá meiri áherslu á það síðan ég eignaðist barn. Fyrir mér er markmiðasetning, gott skipulag og góð tímastjórnun lykillinn að öllu. Ef ég er ekki að passa upp á þessa þætti þá finnst mér ég mjög týnd og dagarnir geta liðið án þess að ég hafi afkastað neinu,“ segir Þóra sem vann Munum-dagbókina ásamt Erlu Björnsdóttur.

Þóra er þeirrar skoðunar að fólk sé í auknum mæli farið að spá í tímastjórnum og gott skipulag. „Já, nútímasamfélagið krefst mikils hraða og fólk er sífellt að gera sér meiri væntingar um að ná að sinna vinnu, fjölskyldu, vinum, áhugamálum og líkams- eða heilsurækt. Það er mikil pressa á fólki að nýta tímann sinn vel. Með góðu skipulagi og aukinni tímastjórnun er hægt að búa til meiri tíma fyrir fjölskyldu, vini og skemmtun. Þegar upp er staðið er þetta það sem veitir manni mestu hamingjuna.“

Þóra segir Munum-dagbókina vera frábært verkfæri til að hjálpa við markmiðasetningu, tímastjórnun og að efla jákvæða hugsun.
Í bókinni Munum eru hvatn­ingar­orð sem eiga að veita innblástur. Þóra segir slík orð gefa henni „spark í rassinn“ og hvatningu. „Persónulega er ég algjör „sökker“ fyrir svona tilvitnunum og hef safnað góðum hvatningarorðum í mörg ár. Mér finnst skemmtilegt að lesa þau og þau gefa mér oft spark í rassinn eða veita mér áminningu. Þess vegna langaði okkur Erlu að hafa vel valin orð í Munum.“

Í sambandi við líkamsrækt segir Þóra ómissandi fyrir sig að vera með niðurnegldan tíma fyrir æfingar. „Það að ákveða fastan tíma eða skipuleggja æfingar fram í tímann er mun vænlegra til árangurs. Þess vegna ákváðum við að hafa æfingaramma í Munum-bókinni, hann á ekki að vera kvöð heldur hvatning. Ég hef sjálf verið að glíma við tímaskort og hef því ekki komist eins mikið í ræktina og ég vildi því að ég reyni að verja tímanum eftir vinnu með syni mínum frekar en að setja hann í barnagæslu eftir að hann hefur verið allan daginn á leikskólanum. En markmiðið er að bæta úr þessu með því að fara oftar fyrir vinnu,“ útskýrir Þóra. Meðfylgjandi eru svo góð tímastjórnunar- og skipulagsráð í boði hennar.

Sex góð ráð fyrir þá sem vilja nýta tímann betur

1. Skipuleggðu tímann þinn vel og gerðu plan fyrir daginn og vikuna svo að þú sért ekki að eyða tímanum í ómerkilega hluti.

2. Forgangsraðaðu verkefnum og flokkaðu eftir því hvaða verkefni verður að klára strax og hvaða verkefni mega bíða.

3. Gerðu to-do-lista yfir það sem þú þarft að gera í upphafi dags eða daginn áður.

4. Farðu aldrei í verkefni tvö á listanum fyrr en þú ert búin með verkefni númer eitt o.s.frv.

5. Ég mæli með smáforriti sem heitir 25 minutes, þá einbeitirðu þér að einu verkefni í einu í 25 mínútur án þess að gera neitt annað, svo tekur þú pásu í 5-10 mínútur og byrjar svo upp á nýtt.

6. Taktu þér tíma til að setjast niður og setja þér markmið. Veltu þá fyrir þér hvað þig virkilega langar til að gera í lífinu og finndu leiðina til að láta það verða að veruleika.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×