Enski boltinn

Ensku landsliðsmennirnir fara með United til Bandaríkjanna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Wayne Rooney verður með alla ferðina.
Wayne Rooney verður með alla ferðina. vísir/getty
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur komið því í gegn að ensku landsliðsmennirnir í röðum félagsins verði með liðinu frá fyrsta degi í æfingaferðinni í Bandaríkjunum sem hefst eftir ellefu daga.

Wayne Rooney, Danny Welbeck, Phil Jones, Luke Shaw og Chris Smalling verða allir með í flugvélinni til Los Angeles þann 18. júlí sem þýðir að þeir verða minna en mánuð í fríi eftir að HM lauk. Venjan er að gefa mönnum mánuð til að hvíla sig eftir stórmót.

Þó allir leikmennirnir hafi æft með enska landsliðinu allan tímann spiluðu þeir mismikið. Wayne Rooney byrjaði tvo leiki og kom seint inn á sem varamaður í þeim þriðja, Danny Welbeck kom ekkert við sögu í síðasta leiknum gegn Kostaríka en lokaleikurinn var sá eini sem Smalling, Shaw og Jones komu við sögu í .

Robin van Persie mætir aftur á móti ekki til leiks hjá United fyrr en í ágúst þar sem hann verður á HM allt til laugardags eða sunnudags. Sama þó Holland falli úr keppni á miðvikudaginn í undanúrslitum gegn Argentínu þarf liðið a.m.k. að spila leikinn um þriðja sætið.

Manchester United vonast til að Van Gaal mæti til starfa strax eftir helgi, en hann er sjálfur búinn að segja að hann ætli ekki að taka sér neitt sumarfrí og verður með í vélinni til Los Angeles 18. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×