Fótbolti

Enrique: Denis Suárez getur orðið nýi Harry Potter hjá Barcelona

Tómas Þór Þórðarso skrifar
Denis Suárez skorar mark fyrir Barcelona í gær.
Denis Suárez skorar mark fyrir Barcelona í gær. vísir/getty
Luis Enrique, þjálfari Spánarmeistara Barcelona, segir Denis Suárez, miðjumann liðsins, vera nógu góðan til að taka við af sjálfum Andrés Iniesta til lengri tíma á miðjunni hjá Katalóníurisanum.

Suárez spilaði virkilega vel í 5-2 sigri Barcelona gegn Real Sociedad í spænska bikarnum í gær en hann skoraði tvö mörk er liðið komst í undanúrslitin. Enrique hrósaði honum í hástert eftir leikinn.

„Suárez getur orðið eftirmaður Iniesta. Af hverju ekki?“ sagði Luis Enrique á blaðamannafundi eftir leikinn um hinn 23 ára gamla Suárez sem gekk í raðir Barcelona frá Villareal síðasta sumar.

Andrés Iniesta er fyrir löngu búinn að tryggja sér stöðu sem einn af goðsögnum Barcelona en það fer að styttast í annan endann á veru hans á Nývangi. Iniesta er orðinn 32 ára gamall en er samt sem áður lykilmaður Katalóníuliðsins.

„Leikmenn verða að þróast. Suárez verður að bæta sig en Iniesta er Harry Potter Barcelona-liðsins. Hann galdrar alltaf eitthvað fram og það verður erfitt að finna mann í staðinn fyrir hann. Denis er samt á réttri leið og vonandi getur hann orðið erfingi Iniesta,“ sagði Luis Enrique.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×