Innlent

Enn raskast flugumferð í Keflavík

Óli Kr. Ármannsson skrifar
Yfirvinnubann flugumferðarstjóra hefur staðið frá 6. apríl.
Yfirvinnubann flugumferðarstjóra hefur staðið frá 6. apríl. vísir/GVA
Röskun varð á millilandaflugi í morgun og í nótt annan daginn í röð vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra. Þjónusta á Keflavíkurflugvelli var takmörkuð við sjúkra- og neyðarflug frá tvö í nótt til sjö í morgun.

„Ástæðan er að tveir flugum­ferðar­stjórar sem áttu að vera á vaktinni í nótt eru veikir og vegna yfirvinnubanns fást ekki flugumferðarstjórar til afleysinga,“ segir á vef Isavia.

Á tímabilinu áttu samkvæmt áætlun að koma hingað 16 flugvélar frá Norður-Ameríku og 8 að leggja upp til Evrópu. Þær komur og brottfarir frestast fram á morguninn í dag.

Kjaraviðræður Félags íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) og Samtaka atvinnulífsins (SA) fyrir hönd Isavia hafa staðið yfir frá því í nóvember, en deilunni hefur verið vísað til ríkis­sáttasemjara. Síðast var fundað í deilunni 20. maí, en ekki hefur verið boðað til næsta fundar. Lögum samkvæmt verður hann þó að eiga sér stað fyrir lok næstu viku. Ekki má líða lengra en tvær vikur milli funda. Yfirvinnubann flugumferðarstjóra hefur staðið yfir frá 6. apríl og 18. þessa mánaðar staðfesti Félagsdómur lögmæti þjálfunarbanns sem FÍF boðaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×