Innlent

Enn bilar Bombardier-vél Flugfélags Íslands

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bombardier-vél Flugfélag Íslands bilaði í dag á Akureyrarflugvelli.
Bombardier-vél Flugfélag Íslands bilaði í dag á Akureyrarflugvelli. Vísir/Vilhelm
Bombardier-vél Flugfélag Íslands bilaði í dag á Akureyrarflugvelli. Er þetta í fjórða sinn síðan í mars sem Bombardier-vél flugfélagsins bilar. Framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands segir að rekstur vélanna gangi vel.

Vélin var nýlent á Akureyrarflugvelli í hádeginu í dag þegar leki í vökvakerfi vélarinnar gerði vart við sig. Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, segir að einhver röskun á flugáætlun flugfélagsins hafi orðið vegna bilunarinnar.

„Þetta hefur nokkrar seinkanir í för með sér. Við erum að athuga hvernig við leysum þetta í þessum töluðu orðum og við sjáum hvort að þetta hafi áhrif á morgun,“ segir Árni.

Búið er að senda flugvirkja norður til Akureyrar og er viðgerð hafinn en óvíst er hversu langan tíma viðgerðin tekur, segir Árni það velta á stöðu varahluta.

Fjórða bilunin frá því í mars.

Í mars neyddist Flugfélag Íslands þrívegis á skömmum tíma til að taka Bombardier-flugvélina úr áætlun vegna bilunar. Í einu tilviki þurfti vélin að lenda í Keflavík vegna þess að vængbörð voru ekki rétt stillt og öðru tilviki þurfti að skipta um rafal í hreyfli.

Árni segir að rekstur flugvélanna gangi vel og flugfélagið sé ánægt með flugvélannar. Flugfélag Íslands er með tvær Bombardier-vélar í rekstri og von er á þeirri þriðju á næstu vikum. Raunar hafi ekkert atvik komið upp á frá því að vélarnar biluðu í þrígang með skömmu millibili.

„Auðvitað geta þessar vélar bilað eins og aðrar, það eru 450 svona vélar í fullri notkun um allan heim,“ segir Andri. „Að okkar mati eru þetta mjög áreiðanlegar og hagkvæmar vélar og góðar í rekstri.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×