Fótbolti

Englendingar kalla þetta versta tapið frá upphafi

Bjarki Ármannsson skrifar
Gary Lineker, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Englands.
Gary Lineker, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Englands. Vísir/Getty
Stærsti sigur íslenska karlalandsliðsins í fótbolta frá upphafi vannst rétt í þessu þegar Íslendingar slógu út Englendinga á Evrópumeistaramótinu í Frakklandi.

Fyrir leikinn hefði það þótt nánast hlægileg tilhugsun að sjálfir upphafsmenn knattspyrnunnar yrðu að lúta í lægra fyrir Íslandi. Englendingar mættu til leiks með margar af helstu stjörnum ensku úrvalsdeildarinnar og mun ríkari sigurhefð en Ísland.

Þeir þurftu þó að bíta í það súra epli að tapa fyrir litla Íslandi og viðbrögðin á breskum miðlum beint í kjölfarið eru samhljóma: Þetta var versta tap enska landsliðsins frá upphafi.

Fyrrverandi landsliðsfyrirliðinn Gary Lineker lýsir því til að mynda hiklaust yfir á Twitter-síðu sinni. Hrósar hann Íslandi fyrir góðan leik en segir það um leið ótækt að England tapi fyrir þjóð sem býr yfir fleiri eldfjöllum en atvinnumönnum í knattspyrnu.

Lýsendur breska ríkisútvarpsins spáðu því að Roy Hodgson landsliðsþjálfari myndi sjálfsagt missa starfið í kvöld eða á morgun vegna tapsins og höfðu rétt fyrir sér. 

Miðvellingurinn málglaði Joey Barton tekur undir og segir að allt þjálfarateymið þurfi að fjúka.

Þá segir Michael Cox, knattspyrnublaðamaður Guardian og ESPN, að enska liðir eigi sér engar afsakanir. Hann segir tapið þó „aðeins“ það versta á stórmóti frá árinu 1950, þegar Englendingar töpuðu fyrir Bandaríkjamönnum á Heimsmeistaramóti í Brasilíu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×