Innlent

Engin efnisbreyting verið gerð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, gagnrýnir skattabreytingar stjórnvalda.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, gagnrýnir skattabreytingar stjórnvalda. Fréttablaðið/Vilhelm
„Hvað þetta frumvarp varðar þá sé ég ekki neina efnisbreytingu sem kemur til móts við þá gagnrýni að það stendur áfram til að hækka verð á öllum matvælum,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar að hækka neðra þrep virðisaukaskatts í ellefu prósent en ekki tólf prósent.

„Það að fara í ellefu prósent en ekki tólf sé ég ekki sem neina efnisbreytingu. Það er enn þá gert ráð fyrir að tekjuöflun vegna niðurfellingar vörugjalda verði með hækkun matarskatts,“ segir Gylfi.

Gylfi bendir á að Bjarni Benediktsson hafi kynnt þær fyrirætlanir að fara með virðisaukaskattsþrepið fljótlega upp í fjórtán prósent í áföngum. Gylfi vill vita hvort þau áform að fara í ellefu prósent en ekki tólf feli í sér að menn séu núna að falla frá því lokatakmarki að fara í fjórtán prósent.

Bjarni Benediktsson sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær, að með því að fara í ellefu prósent en ekki tólf prósent sé verið að gefa eftir rétt rúmlega tvo milljarða af skatttekjum. „Við erum að halda okkur við þá stóru kerfisbreytingu sem er að draga úr muninum milli þrepanna, draga úr þessari gjá sem er á milli þrepanna,“ segir Bjarni. Þá verði vörugjöldin felld niður og það hafi enn jákvæðari áhrif á kaupmátt, ráðstöfunartekjur og verðlag í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×