Lífið

Endurgerðir af verkum gömlu meistaranna

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Sýningin verður opnuð í dag klukkan 14.00 en þar má sjá myndir af mörgum verkum gömlu meistaranna.
Sýningin verður opnuð í dag klukkan 14.00 en þar má sjá myndir af mörgum verkum gömlu meistaranna. Vísir/Valli
Í dag verður sýningin The Forger‘s masterclass opnuð í Bókasafninu í Kópavogi.

Á sýningunni verður hægt að berja augum myndir af meistaraverkum fyrri tíma en verkin voru unnin af nemendum námskeiðsins Listmálaratækni gömlu meistaranna sem kennt er í Myndlistarskóla Kópavogs. Leiðbeinandi þess er Stephen Williams Stephen.

Á námskeiðinu voru verk gömlu meistaranna endurgerð af nemendum námskeiðsins. „Þetta er mjög klassísk málunaraðferð sem ríkti frá fimmtándu öld til tuttugustu aldar þegar módernísku málverkin taka við,“ segir Sigurbjörg Jóhannesdóttir en hún er ein þeirra sem eiga verk á sýningunni.

Sigurbjörg er langt frá því að vera ókunn penslinum og er útskrifuð úr Myndlistar- og handíðaskóla Íslands en hún segist þó aldrei hafa kynnst aðferðunum sem notast var við á námskeiðinu áður.

Sigurbjörg endurgerði verkið Fall mannsins eftir Rubens en hún segir valið hafa verið fremur tilviljunarkennt. Á sýningunni má einnig sjá endurgerðir af góðkunnum verkum á borð við Stúlka með perlueyrnalokk eftir Vermeer, Hefðarkonan með hreysikött eftir Leonardo da Vinci, Sígaunamadonna eftir Titian auk annarra verka eftir nemendur námskeiðsins.

Sýningin opnar í Bókasafni Kópavogs í dag klukkan 14.00.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×