Innlent

Elliði brjálaður vegna lokunar flugvallarins í Eyjum

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Engar samgöngur verða til og frá Vestmannaeyjum á laugardaginn ef að líkum lætur.
Engar samgöngur verða til og frá Vestmannaeyjum á laugardaginn ef að líkum lætur.
„Þegar ég fékk þessa tilkynningu kíkti ég bakvið hurð til að athuga hvort Auðunn Blöndal væri þar og ég væri í falinni myndavél,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, sem er gríðarlega ósáttur við þá ákvörðun Isavia að loka flugvellinum í Vestmannaeyjum á laugardögum, að minnsta kosti til loka aprílmánaðar.

Þetta þýðir að á laugardaginn kemur verða líklega engar samgöngur til og frá Vestmannaeyjum, því kjarabarátta áhafnar Herjólfs felur í sér yfirvinnubann og siglir báturinn því ekki um helgar og afar langt ber á milli í kröfum áhafnarinnar og tilboði rekstraraðila Herjólfs.

Elliði furðar sig á þessari ákvörðun, en hann fékk að vita um lokun flugvallarins rétt í þessu, með þriggja daga fyrirvara. „Ég spyr bara, er þetta fólk ekki með öllum mjalla?“

Hæstu skattgreiðendur á landinu

Elliði segir nútíma byggðarlög þrífast á samgöngum. „Það tekur allt afl úr svona samfélögum þegar samgöngur leggjast niður. Vestmannaeyingar eru hæstu skattgreiðendur landsins og það er ljóst að með þessu virðingar- og skeytingarleysi er verið að koma í veg fyrir að við getum framleitt verðmæti, þetta er komið langt út fyrir alla skynsemi.“

Í raun og veru rothöggið

Samgöngur hafa verið stopular undanfarið og nú segir Elliði botninn hafa tekið úr. „Já, þetta er í raun og veru rothöggið. Flugfélagið Ernir hafa sinnt okkar þörfum mjög vel og staðið sig með prýði. En nú á að loka flugvellinum svo við getum ekki notið þeirra þjónustu.“

Elliði tekur þó fram að hægt verði að opna flugvöllinn ef eitthvað mikið beri við, en það kosti sitt.

Elliði mun setja sig í samband við innanríkisráðherra og krefjast þess að þessi ákvörðun verði endurskoðuð, sem hann býst við að verði raunin. „En það er ótrúlegt að þurfa að heyra í ráðherra vegna málsins. Þetta er svona eins og hafa samband við heilbrgiðisráðherra til þess að fá magnyl.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×