Erlent

Ellefu ára skaut átta ára stúlku af því hún vildi ekki sýna honum hvolp

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Börnin gengu í sama skóla og segir móðir stúlkunnar að drengurinn hafi strítt dóttur sinni.
Börnin gengu í sama skóla og segir móðir stúlkunnar að drengurinn hafi strítt dóttur sinni. Vísir/Getty Images
Ellefu ára drengur er í haldi lögreglunnar í Tennessee í Bandaríkjunum eftir að hafa ráðið átta ára nágrannastelpu bana. Drengurinn hefur verið ákærður fyrir morð og verður réttað yfir honum sem ungmenni.

Samkvæmt lögreglunni skaut drengurinn stúlkuna, sem heitir McKayla Dyer, á laugardagskvöld með byssu föður síns, eftir að hún neitaði að sýna honum hvolpinn sinn.

Móðir stúlkunnar, Latasha Dyer, sagði í samtali við WATE-TV sjónvarpsstöðina, að börnin hafi gengið í sama skóla. 

„Hann gerði grín að henni, uppnefndi hana, var bara vondur við hana. Hann hætti því um tíma en svo allt í einu í gær, skaut hann hana," sagði móðirin. „Ég vil fá hana aftur í fangið.“

Málið er langt því frá einsdæmi því samkvæmt félagasamtökum sem halda utan um tölfræði tengd byssuofbeldi í Bandaríkjunum, hafa 559 börn á aldrinum ellefu ára og yngri, slasast eða dáið vegna byssuofbeldis í Bandaríkjunum það sem af er þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×