Innlent

Eldri borgarar aðstoði við íslenskuna

Freyr Bjarnason skrifar
Börn í Dalskóla. Rætt hefur verið við félag eldri borgara um að sjálfboðaliðar aðstoði börn í Dalskóla við íslenskunám.
Börn í Dalskóla. Rætt hefur verið við félag eldri borgara um að sjálfboðaliðar aðstoði börn í Dalskóla við íslenskunám. Fréttablaðið/Vilhelm
Dalskóli í Úlfarsárdal hefur leitað til Félags eldri borgara um að útvega sjálfboðaliða í verkefni sem felst í að aðstoða börn við að æfa og þjálfa lestur og færni í íslensku. Um er að ræða börn í 2., 3. og 5. bekk, flest af erlendum uppruna.

Á síðasta skólaári kom reyndur skólamaður í heimsókn í Dalskóla tvisvar sinnum í viku og sá um leshring með drengjum. Vegna þess hversu vel það gekk var ákveðið að leita aftur til hans fyrir þetta skólaár, auk þess sem rætt hefur verið við Félag eldri borgara um að taka þátt.

Félagið hefur góða reynslu af svona verkefnum því síðasta vetur sinnti það tveimur öðrum skólum, Norðlingaskóla og Ingunnarskóla í Reykjavík. „Það fór fólk í lestur með börnum og ég á von á því að það takist aftur,“ segir Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Félags eldri borgara, aðspurð.

Hún tekur fram að börnin hafi ekki verið öll af erlendum uppruna. „Það geta verið félagslegar aðstæður sem spila inn í og að börnin þurfi meiri viðurkenningu. Við höldum að þetta sé mjög þarft, að kynslóðirnar hittist.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×