Innlent

Ekki leitað í dag nema nýjar vísbendingar berist

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Björgunarsveitarmenn leituðu á stóru svæði umhverfis Hafnarfjarðarhöfn í gær.
Björgunarsveitarmenn leituðu á stóru svæði umhverfis Hafnarfjarðarhöfn í gær. Vísir/Vilhelm
Ekki verður leitað að Birnu Brjánsdóttur, tvítugri konu sem saknað hefur verið frá því á laugardag, nema frekari vísbendingar berist. Svæðið umhverfis Hafnarfjarðarhöfn og víðar var fínkembt í gær, að sögn Þorsteins G. Gunnarssonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar.

„Það var tekin ákvörðun um það að við yrðum í viðbragðsstöðu og ef það koma upp nýjar vísbendingar þá förum við,“ segir Þorsteinn í samtali við Vísi.

Umfangsmikil leit var í Hafnarfirði í gær þar sem skór Birnu fundust. Jafnframt var unnið út frá  farsímagögnum sem benda til þess að Birna hafi verið í Hafnarfirði og meðal annars leitað við Urriðaholt og Flatahraun. Fjölmennt lið björgunarsveita og lögreglu leituðu hennar, og var notast við tvo dróna, tvær þyrlur, kafara, kafbát og hunda.

„Aðgerðarstjórn okkar og lögregla eru í sambandi og vinna saman og meta stöðuna hverju sinni út frá þeim vísbendingum sem koma,“ segir Þorsteinn.

Lögregla óskaði eftir því í gær að grænlenski togarinn Polar Nanok, sem hélt frá Hafnarfirði á laugardagskvöld, kæmi aftur til hafnar hér á landi. Það var gert þar sem einn úr áhöfninni hafði tekið rauðan Kia Rio smábíl á leigu en lögregla hafði lýst eftir ökumanni rauðrar Kia Rio bifreiðar í tengslum við málið. Togarinn er að óbreyttu væntanlegur til Hafnarfjarðar í kvöld. Lögreglan fullyrðir að enginn um borð sé með réttarstöðu grunaðs manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×