Erlent

Ekki fleiri aftökur í Nebraska

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Þingið fór gegn ríkisstjóranum og bannaði dauðarefsingar.
Þingið fór gegn ríkisstjóranum og bannaði dauðarefsingar. Vísir/CACorrections
Ríkisþingið í Nebraska í Bandaríkjunum hefur samþykkt lög sem banna dauðarefsingar. Bannið var samþykkt í óþökk ríkisstjóra fylkisins sem hafði neitað að staðfesta lögin en þingið nýtti sér heimild til að fara fram hjá neitunarvaldi ríkisstjórans.

Nebraska er nítjánda ríkið til að samþykkja bann við dauðarefsingum en auk þess eru þær bannaðar í WashingtonD.C. Enginn hefur verið tekinn af lífi í ríkinu síðan árið 1997. 

Lögin voru samþykkt með 30 atkvæðum gegn 19, en þau nutu stuðnings þingmanna úr bæði meirihluta og minnihluta þingsins. Repúblikanar eru í meirihluta á þinginu en ríkisstjóri Nebraska er einnig Repúblikani. Þingmenn flokksins sem samþykktu frumvarpið sögðu ýmist að praktískar, trúarlegar og siðferðilegar ástæður réðu afstöðu sinni.

Bannið er samþykkt á sama tíma og önnur ríki reyna að finna nýjar leiðir til að framfylgja dauðarefsingum. Erfiðlega hefur gengið fyrir ríki að kaupa lyf sem notuð hafa verið til að taka fanga af lífi og samþykkti ríkisþingið í Utah nýverið að heimila notkun aftökusveita.

Þrátt fyrir bannið getur bandaríska alríkisstjórnin enn látið taka fanga frá Nebraska af lífi. Bandaríkin eru eitt 36 landa þar sem fangar eru enn teknir af lífi en það er einnig gert í Afganistan, Kína, Japan, Norður-Kóreu og Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×