Innlent

Ekki búist við hlaupi

Gosmökkurinn sést vel á þessari gerfitunglamynd frá NASA.
Gosmökkurinn sést vel á þessari gerfitunglamynd frá NASA. PHOTO/NASA
Staðfest hefur verið að gosið í Grímsvötnum er í sjálfri öskjunni nærri þeim stað þar sem gaus árið 2004. Þetta kemur fram á heimasíðu veðurstofunnar. Síðast hljóp úr Grímsvötnum árið 2010 og hefur lítið vatn safnast þar saman og þunnur ís er á öskjunni. Þegar gaus á sama stað árin 1998 og 2004 urður jökulhlaup nokkru eftir að gosið hófst en ekki er talið að samsvarandi aðstæður séu uppi nú. Því er ekki búist við jökulhlaupi að því er fram kemur á heimasíðu veðurstofunnar.

Miklar eldingar hafa verið í gosmekkinum og hefur sérstakur vefur verið settur upp á heimasíðu Veðurstofunnar sem sýnir eldingarnar. Á síðunni kemur fram að fjöldi skráðra eldinga í gosinu í gærkveldi og í nótt mældist um þúsund sinnum hærri en í gosinu í Eyjafjallajökli í fyrra.

„Á fyrstu 18 klst gossins hafa mælst um 15 þús. eldingar, en á 39 dögum Eyjafjallajökulsgossins mældust 790 eldingar með sama mælikerfi. Rannsóknir í Eyjafjallajökulsgosinu benda til að eldingar verði þegar mökkurinn rís það hátt að vatn í honum frýs," segir ennfremur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×