Sport

Ekkert verður af bardaga Jones og Cormier

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jones og Cormier berjast ekki um helgina.
Jones og Cormier berjast ekki um helgina. vísir/getty
Aðalbardaginn á stærsta kvöldi í sögu UFC hefur verið blásinn af þar sem Jon Jones virðist hafa fallið á lyfjaprófi.

UFC 200 fer fram um helgina og þar átti aðalbardaginn að vera á milli Jones og Daniel Cormier. Bandaríska lyfjaeftirlitið segir að líkur séu á að Jones hafi fallið og þarf að prófa sýnin hans betur. Tíminn er aftur á móti stuttur og ekkert verður því af bardaganum.

UFC tekur lyfjamálin sín mjög alvarlega og greiðir bandaríska lyfjaeftirlitinu mikinn pening til þess að sjá um alla lyfjaprófun. Þeir virða líka þeirra úrskurði þó svo það muni líklega kosta sambandið afar mikinn pening að þessu sinni.

Þetta er gríðarlegur skellur fyrir UFC sem hefur blásið til mikillar veislu. Þetta er annað áfallið sem UFC 200 verður fyrir því upprunalega átti bardagi Conor McGregor og Nate Diaz að vera aðalbardaginn.

Bardagi Brock Lesnar og Mark Hunt verður því aðalbardagi kvöldsins.

UFC hefur ekki útilokað að redda Cormier andstæðingi með tveggja daga fyrirvara. Þetta er í annað sinn sem bardagi Jones og Cormier frestast í ár en í apríl var Cormier meiddur er þeir áttu að berjast.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×