Innlent

Ekkert embætti á Akranesi

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Akranes er fjölmennasti kaupstaðurinn í umdæminu og Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri mælir með að aðalstöð lögreglustjóra verði á Akranesi.
Akranes er fjölmennasti kaupstaðurinn í umdæminu og Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri mælir með að aðalstöð lögreglustjóra verði á Akranesi. vísir/gva
Í drögum að nýrri reglugerð um umdæmi lögreglustjóra og umdæmi sýslumanna sem innanríkisráðuneytið hefur birt á heimasíðu sinni, kemur fram að ekki er fyrirhugað að aðalstöð lögreglustjóra eða skrifstofa sýslumanns fyrir Vesturland verði á Akranesi.

Ólafur Adolfsson, formaður bæjarráðs Akraneskaupstaðar, er gáttaður á drögum ráðuneytisins, enda kaupstaðurinn langfjölmennasti byggðakjarninn á Vesturlandi, með um 6.700 íbúa, um þrisvar sinnum fleiri íbúa en næst stærsti byggðakjarninn. „Það kemur okkur verulega á óvart ef reglugerðardrögin verða staðfest óbreytt,“ segir Ólafur.

Í drögunum kemur fram að koma eigi sýslumannsembættinu fyrir í Stykkishólmi og að embætti lögreglustjóra verði í Borgarnesi. Samkvæmt Ólafi hefur enginn rökstuðningur komið fram um hvers vegna ráðherra velur að setja embættin á ofangreinda staði.

Í reglugerðinni verður embættum sýslumanna fækkað úr 24 í níu og embættum lögreglustjóra verður fækkað úr fimmtán í níu. Yfirstjórn lögreglu var aðskilin frá yfirstjórn sýslumannsembætta. Akurnesingar missa þar með bæði lögreglustjóra og sýslumann, sem eru einn og sami embættismaðurinn í dag.

„Í grunninn erum við alveg sammála sameiningu embætta en við reiknuðum með að að minnsta kosti annað embættið yrði staðsett á Akranesi,“ segir Ólafur.

ólafur adolfsson
Bæjarráðið og Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Akraneskaupsstaðar, hafa sent umsögn til innanríkisráðuneytisins þar sem drögin að reglugerðinni eru gagnrýnd með ýmsum rökum. „Við fórum á fund með innanríkisráðherra í sumar og fengum fullvissu um að sá sem skipaður yrði lögreglustjóri í umdæminu hefði mikið um það að segja hvar skrifstofa lögreglustjóra yrði staðsett,“ segir Ólafur.

Úlfar Lúðvíksson, nýskipaður lögreglustjóri umdæmisins, sendi bæjarstjóra Akraness og sveitarstjóra Borgarbyggðar tölvupóst í síðasta mánuði, þar sem hann skýrir og rökstyður það mat sitt að aðalstöðvar lögreglustjóra skuli vera á Akranesi. 

Úlfar segir meðal annars í póstinum að eftir að hafa skoðað aðstöðu lögreglu á Snæfellsnesi, Borgarnesi og á Akranesi telji hann að heppilegast sé að aðalstöð lögreglustjóra verði á Akranesi. Hann bætir við að aðstaða lögreglunnar á Akranesi sé til fyrirmyndar, enda þar fjölmennasta lögregluliðið á Vesturlandi. Lögreglustöðin í kaupstaðnum sé sú eina sem er með sólarhringsvakt og embættið þurfi að sýna styrk sinn í fjölmennasta byggðakjarnanum.

Bæjarráðið sendi umsögnina í gær og bíður nú niðurstöðu ráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×