Innlent

Ekkert bólar á Orkuveiturannsókn

SB skrifar
Jón Gnarr
Jón Gnarr
Rannsókn á starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur er enn ekki hafin en borgarstjóri lofaði henni þegar tilkynnt var um milljarðalán Reykjavíkurborgar til Orkuveitunnar fyrir um tveimur mánuðum síðan. Ekki hefur enn tekist að skipa í nefndina, að sögn Dags B. Eggertsson.

Nú eru tæpir tveir mánuðir síðan Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, sagði fyrirtækið í raun gjaldþrota. Tilkynnt var um víðtækar björgunaraðgerðir þann 28. mars. Borgarráð samþykkti 12 milljarða króna víkjandi lán til fyrirtækisins, eignir skyldu seldar, fjárfestingum frestað og álögur á viðskiptavini hækkaðar.

Á sama tíma boðaði Jón Gnarr, borgarstjóri, að ráðist yrði í víðtæka rannsókn á því hvað fór úrskeiðis í rekstri Orkuveitunnar. Í ræðu sinni á fundi borgarstjórnar sagðist Jón leggja á það mikla áherslu að flýta vinnu við að skipa nefnd óháðra sérfræðinga sem rannsaki orsakir þeirrar fjárhagslegu stöðu sem Orkuveita Reykjavíkur hafi ratað í.

Þessi rannsókn var sögð nauðsynleg til að skapa frið um fyrirtækið, eyða tortryggni og auka traust.

Á blaðamannafundinum þann 28. mars sagði Jón: "Við ætlum að reyna að hrinda þessari rannsókn í framkvæmd svo fljótt sem hægt er."

Ekkert bólar hins vegar á hinni boðuðu rannsókn. Í svari við fyrirspurn sem fréttastofa sendi Degi B. Eggertssyni sagði hann vinnuna við að skipa starfshópinn taka lengri tíma en ætlað var. Kallað hafi verið eftir tilnefningum frá háskóla Íslands og þær tilnefningar þurfi svo að bera undir aðra flokka í borgarstjórn. Þá væri flókið að finna endurskoðanda sem ekki hefði tengsl við Orkuveituna en öll helstu endurskoðendafyrirtæki hafi á einhverjum tímpunkti starfað fyrir fyrirtækið. Dagur sagði eðlilegt að undirbúningur við mál af þessari stærðargráðu taki tíma enda þurfi að vanda hvert skref.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×