Innlent

Ekkert annað en svik við yfirveðsett heimili

Heimir Már Pétursson skrifar
Formaður Hagsmunasamtaka heimilanna segir það ekkert annað en svik af hálfu stjórnarflokkanna að hætta við að leggja fram svo kallað lyklafrumvarp, eins innanríkisráðherra hefði upplýst um á Alþingi í morgun.  Nú verði eigendur yfirveðsettra heimila hundeltir af kröfuhöfum.

Með lyklafrumvarpi er átt við að setja í lög að eigendur yfirveðsettra heimila geti skilað lyklunum af húseignum sínum og þar með verið lausir allra mála. Veðhafar töpuðu þannig þeim kröfum sem væru umfram verðmæti húseignar og húseigandinn öllu því sem hann hafði lagt í húsnæðið.

Helgi Hjörvar þingflokksformaður Samfylkingarinnar minnti á það á Alþingi í dag að núverandi innanríkisráðherra hefði varaformannstíð sinni í boðað frumvarp sem þetta á flokkráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í mars 2012.

„Bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn lofuðu í kosningabaráttunni að lögfesta lyklafrumvarpið.  Og margt fólk sem á í miklum erfiðleikum bindur vonir við að það verði gert. Ég kalla eftir því að hæstvirtur ráðherra svari því einfaldlega núna á miðju kjörtímabili hvort það eigi að efna loforðið eða ekki,“ spurði Helgi.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra kannaðist við þessi loforð en í millitíðinni hefði verið kosið og ríkisstjórnin náð þeirri niðurstöðu að fara svo kallaða leiðréttingarleið í skuldamálum heimilanna.

„Þess vegna get ég sagt við háttvirtan þingmann að á þessu stigi er ekkert frumvarp í smíðum í innanríkisráðuneytinu sem snýr að lyklamálum,“ svaraði Ólöf.

Hvað finnst þér um þessi tíðindi?

„Þetta eru stórtíðindi, að loksins kom eitthvað um það frá ráðherrum og ríkisstjórn að það eigi ekki að gera neitt lengur fyrir heimilin. Sem fylgdi nú eiginlega með; að það væri svona nokkurn veginn búið að gera allt sem hægt væri fyrir heimilin,“ segir Vilhjálmur Bjarnason formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.

Þetta væri ekkert annað en svik við þann fjölda fólks sem beðið hafi eftir því að þetta loforð stjórnarflokkanna yrði efnt sem þrautarlending.

„Nú stendur þetta fólk frami fyrir því að verða hundelt með það sem stendur út af eignum þess. Þannig að þetta eru bara svik finnst mér,“ segir Vilhjálmur Bjarnason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×