Fastir pennar

Eintal um Evrópu

Þorsteinn Pálsson skrifar
Andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu hafa réttilega bent á að umræðan um aðildarumsóknina hefur um nokkra hríð verið eintal þeirra sjálfra. Þeir eyða miklu púðri í sleggjudóma gegn því sem enginn berst fyrir.

Í síðustu kosningum höfðu þrír flokkar aðild á stefnuskrá sinni og fengu meirihluta þingmanna. Þremur árum seinna er Samfylkingin ein um hituna. Forysta flokksins hefur á hinn bóginn algjörlega brugðist í því að standa í pólitískri sókn og vörn fyrir þeirri ákvörðun Alþingis að sækja um aðild. Engu er líkara en aðeins sumir á þeim bæ viti hvers vegna málið er á stefnuskrá.

Við slíkar aðstæður þurfa andstæðingar aðildar ekki að hafa mikið fyrir lífinu. Eðlilega hlakkar í þeim þegar enginn er til að eiga orðastað við. Nú líta þeir svo á að málið sé úr sögunni vegna efnahagsörðugleika sumra evruríkja. Skiljanlega hagnýta aðildarandstæðingar þær aðstæður til hræðsluáróðurs. En eru það gild rök?

Svarið við þeirri spurningu ræðst fyrst og fremst af því hvort menn vilja móta langtímastefnu um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna eða láta hana ráðast af efnahagslegum sviptivindum frá einu misseri til annars.

Eitt er að taka lengri tíma í viðræður um aðild en ella vegna þess vanda sem Evrópusambandið glímir nú við. Annað er að þeir sem segjast nota þessi rök í alvöru gegn aðild eru ekki samkvæmir sjálfum sér nema viðurkenna um leið að Ísland eigi aldrei að vera í skipulögðum félagsskap með þjóðum sem eiga á hættu að lenda í efnahagsörðugleikum.

Talsmenn aðildarandstöðunnar eru því annað hvort einangrunarsinnar eða að nota þessar aðstæður í tímabundnum hræðsluáróðri. Hvorug skýringin er góð fyrir þá; en sú seinni þó skárri.

Hvaða skjól viljum við?

Fyrir fjórum árum hrundi krónan með gífurlegum afleiðingum fyrir stærstan hluta fyrirtækja og stóran hluta heimila. Fall bankanna dýpkaði þessa kreppu. Tuttugu ára lífskjarabati reyndist froða. Ísland fékk lánafyrirgreiðslu frá nokkrum Evrópusambandsríkjum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Aðeins Írland varði hlutfallslega meiru af peningum skattborgaranna til að aðstoða banka. Ef suðurríki Evrópusambandsins eru brunarústir hvað var þá Ísland?

Hagtölur sýna að Ísland er komið út úr þeirri kreppu sem nú skellur á sumum öðrum Evrópuþjóðum. Ástæðan er fyrst og fremst sú að við höfum lokað erlent fjármagn inni í landinu með höftum og ríkið gengur í lífeyri landsmanna á lægri vaxtakjörum en mögulegt er að fá á alþjóðlegum mörkuðum. En þetta er bara tímabundin ósjálfbær lausn.

Ríkisstjórnin hefur enga stefnu um að koma Íslandi út úr höftunum. Ástæðan er fyrst og fremst sú að hún vill það ekki. Efnahagsráðherrann segir að höftin séu skjól. Ætlunin er að halda í þetta skjól af því að hitt er erfiðara að koma þjóðarbúskapnum á þær undirstöður sem þola vinda alþjóðamarkaða. Samfylkingin fylgir honum að málum. Hin hliðin á þeim peningi er að með því útilokar hún aðild að Evrópusambandinu í bráð.

Efnahagsleg hentistefna er tekin fram yfir langtímasjónarmið. Það er skýringin á því að enginn er í pólitískri málsvörn fyrir aðildarumsóknina. Það er ekkert samræmi milli aðildarumsóknarinnar og efnahagsstefnunnar.

Dýpri þögn

Stjórnarandstöðuflokkarnir tveir hafa sýnt fram á veikleika efnahagsstefnunnar. Verkurinn er hins vegar sá að þeir hafa ekki fremur en ríkisstjórnin sett fram trúverðuga efnahagáætlun. Þeir taka stundum undir með efnahagsráðherranum um skjólið og vegsama títt hrun krónunnar eins og það hafi verið gæfa en ekki áfall.

Ef hér á að byggja upp þjóðarbúskap með sjálfbærum hætti þarf að efla sparnað en ekki ganga á hann. Íslensk fyrirtæki þurfa að eiga skjól á erlendum mörkuðum fremur en í innlendum höftum. Þjóðir treysta stöðu sína með þátttöku í alþjóðlegu samstarfi til að ná markmiðum af þessu tagi. Erfiðleikar á öllum helstu markaðssvæðum heimsins gera þörfina fyrir þátttöku í alþjóðasamstarfi meiri en ekki minni.

Aðild að Evrópusambandinu leysir engin mál á átakalausan hátt. Slíkar lausnir eru ekki þessa heims. Á hinn bóginn er sambandið umgjörð og skjól fyrir frjáls viðskipti. Ekkert af markmiðum þess gengur gegn stefnu þeirra flokka sem aðhyllast markaðsbúskap. Þvert á móti er samvinna þjóða forsenda fyrir því að unnt sé að fylgja þeirri stefnu í verki.

Andstæðingar Evrópusambandsaðildar þurfa að svara hvernig þeir hyggjast tryggja pólitíska og efnahagslega hagsmuni Íslands í alþjóðasamfélaginu til lengri tíma. Á að einangra landið? Ef ekki, hver er þá lausnin? Þögnin um þetta er dýpri en hljóðlaus málsvörn Samfylkingarinnar fyrir aðild.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×