Fótbolti

Einstök liðsuppstilling í 118 ára sögu Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Byrjunarlið Barcelona í gær.
Byrjunarlið Barcelona í gær. Vísir/Getty
Barcelona vann lífsnauðsynlegan sigur á Leganés á Nývangi í gær þökk sé vítaspyrnu Lionel Messi á lokamínútu leiksins.

Sigurinn minnkað forskot Real Madrid í eitt stig á toppnum en Real Madrid á reyndar tvo leiki til góða.

Luis Enrique, þjálfari Barcelona, stillti upp liði í þessum leik á móti Leganés sem hefur ekki sést áður í 118 ára sögu FC Barcelona. Spænski tölfræðingurinn Alexis Martín-Tamayo sagði frá þessu.

Það voru nefnilega tíu erlendir leikmenn í byrjunarliði Luis Enrique í gær. Eini Spánverjinn var Sergi Roberto sem er einnig frá Katalóníu. Hinir tíu voru útlendingar.

Barcelona var búið að spila 4250 opinbera leiki án þess að nota svona marga útlendinga í byrjunarliðinu sínu.

Í byrjunarliðinu voru þrír Frakkar, tveir Brasilíumenn og svo einn Þjóðverji, einn Króati, einn Portúgali, einn Spánverji, einn Úrúgvæi og svo einn Argentínumaðurinn sem síðan gerði út um leikinn.

Þrír Spánverjar komu inn á sem varamenn og Börsungar voru því „bara“ með átta útlendinga á vellinum þegar Lionel Messi skoraði sigurmarkið.

Þetta er athyglisverð þróun hjá Katalóníufélaginu ekki síst þar sem að fyrir fjórum árum var liðið oftast með átta Spánverja inn á vellinum.



Byrjunarlið Barcelona í leiknum í gær:

Markvörður

Ter Stegen, Þýskalandi

Varnarlínan

Sergi Roberto, Spáni

Samuel Umtiti, Frakklandi

Jérémy Mathieu, Frakklandi

Lucas Digne, Frakklandi

Miðjumenn

Ivan Rakitić, Króatíu

André Gomes, Portúgal

Rafinha, Brasilíu

Sóknarmenn

Lionel Messi, Argentínu

Luis Suárez, Úrúgvæ

Neymar, Brasilíu

Spánverjarnir Denis Suárez, Andrés Iniesta og Jordi Alba komu inná sem varamenn í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×