Innlent

Einstaklega gott berjaár

Sæunn Gísladóttir skrifar
Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og berjasérfræðingur, segir árið 2016 einstakt til berjatínslu.
Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og berjasérfræðingur, segir árið 2016 einstakt til berjatínslu.
„Það lítur alveg einstaklega vel út með sprettuna og má segja nánast alls staðar á landinu,“ segir Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og berjasérfræðingur.

„Það er enn ráðlagt að handtína bláberin og aðalbláberin, það er misjafnt hvernig þau spretta. Á norðanverðu Snæfellsnesi voru aðalbláber orðin þroskuð víða fyrir svona viku en bláber áttu talsvert í land. En á Stöðvarfirði voru bláberin á undan. Á báðum stöðum eru góð krækiber og þó enn sé ekki kominn ágústmánuður er alveg óhætt að fara að taka til ílát og fara að koma sér í berjamó,“ segir hann.

Sveinn Rúnar segir að einn af höfuðþáttunum sem skýri hversu lífleg sprettan er í ár sé hitinn í vor. „Maímánuður sló hitamet hjá okkur og júnímánuður var líka góður.“

Hann segir að verið sé að tína fyrr heldur en venjulega. „Þetta er mikil spretta og ætlar að verða einstaklega gott berjaár, og langt berjatímabil. Það er ekki bara hvað vorið var gott og þetta fór vel af stað, heldur hefur sumarið verið svo hlýtt út um allt land, það hefur sannarlega sitt að segja,“ segir Sveinn Rúnar. Hann segir erfitt að vita hversu langt berjaárið verði, næturfrostin bindi venjulega enda á berjasprettuna, en hægt er að tína langt fram í október.

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×