Innlent

Eins og minkar í hænsnabúi

Heitar umræður urðu um átök í Freyju, félagi framsóknarkvenna í Kópavogi, á fundi Landssambands framsóknarkvenna í gær. Á aðalfundi Freyju í liðinni viku gengu 43 konur í félagið og felldu Unu Maríu Óskarsdóttur, varaformann félagsins, úr stjórninni. Una er einnig formaður Landssambands framsóknarkvenna og fyrrverandi aðstoðarmaður Sivjar Friðleifsdóttur í umhverfisráðuneytinu. Talað hefur verið um hallarbyltingu í félaginu og látið liggja að því að tilgangur með henni sé að koma Páli Magnússyni, aðstoðarmanni Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra og bróður Árna Magnússonar félagsmálaráðherra, að sem oddvita framsóknarmanna í bæjarstjórn Kópavogs. Á fundinn á Hótel Borg mættu allar þingkonur flokksins og um þrjátíu konur í allt en engin þeirra kvenna sem gengu í Freyju í vikunni. Þungt hljóð var í mörgum og þótti sumum sem Freyja hefði verið hertekin af bandamönnum Páls og Árna. Með innkomu kvennanna fjölgaði stuðningsmönnum bræðranna verulega. Konurnar skráðu sig í félagið sama dag og fundurinn fór fram með aðstoð Aðalheiðar Sigursveinsdóttur, konu Páls, og á meðal þeirra var Edda Björg Hákonardóttir, eiginkona Árna Magnússonar. Viðmælandi blaðsins úr röðum framsóknarkvenna, sem vildi ekki láta nafn síns getið, sagði að framkoma kvennanna á fundinum gæti hafa verið lögleg en sé örugglega siðlaus. Fundurinn hefur verið kærður til laganefndar Framsóknarflokksins sem fjallar um málið í næstu viku. Á fundinum í gær var rætt um að óheppilegt hafi verið að Páll og Árni Magnússynir stæðu svo nærri byltingu innan kvenfélags í flokknum, það væri eins og að hleypa minkum inn í hænsnabú. "Það er óviðunandi að karlmenn séu komnir með hendurnar inn í kvenfélögin," sagði viðmælandi blaðsins. Siv Friðleifsdóttur sagði á heimasíðunni í gær að flokksmönnum misbjóði að ítrekað skuli stofnað til ófriðar í flokknum. Bryndís Bjarnason, jafnréttisfulltrúi Framsóknarflokksins, segir að Landssambandið ætli að berjast fyrir því á komandi flokksþingi Framsóknarflokksins að í lög flokksins verði sett ákvæði um að í forystu flokksins verði konur aldrei færri en fjörutíu prósent fulltrúa.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×