Erlent

Einn nánasti ráðgjafi Trump kenndi flóttamönnum um fjöldamorð sem aldrei var framið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kellyanne Conway, einn nánasti ráðgafi Donald Trump.
Kellyanne Conway, einn nánasti ráðgafi Donald Trump. Vísir/EPA
Kellyanne Conway, einn nánasti ráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta, hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að kenna tveimur írökskum flóttamönnum um fjöldamorð sem aldrei var framið. The Guardian greinir frá.

Conway var gestur í sjónvarpsþætti Chris Matthews og vitnaði hún í „fjöldamorðin í Bowling Green“ til þess að verja umdeilda tilskipun Trump sem meinar ríkisborgurum sjö ríkja þar sem múslimar eru í meirihluta inngöngu í Bandaríkin.

Sagði hún að tilskipun Trump væri sambærileg við aðgerðir ríkisstjórnar Barack Obama, forvera Trump í starfi, en árið 2011 setti Obama á tímabundið bann við móttöku flóttamanna frá Írak.

Á það hefur verið bent að bann Obama hafi verið til þess fallið að framkvæma sex mánaða endurskoðun á móttöku flóttamanna frá Írak eftir að tveir írakskir ríkisborgar reyndu að senda vopn og fjármuni til heimalands síns.

Sjá einnig: 1984 uppseld eftir ummæli um „hliðstæðar staðreyndir“

„Ég þori að veðja að það séu glænýjar upplýsingar að Obama setti á sex mánaða bann við móttöku flóttamanna frá Írak eftir að tveir Írakar komu hingað, gerðust róttækir og stóðu að baki fjöldamorðinu í Bowling Green,“ sagði Conway og bætti við að þetta væri ekki almenn vitneskja vegna þess að enginn hafði fjallað um fjöldamorðið.

Ástæðan fyrir því að ekki var fjallað um fjöldamorðið er einföld, það átti sér aldrei stað. Mennirnir tveir bjuggu vissulega í Bowling Green, sem er bær í Kentucky-ríki Bandaríkjanna en þeir dúsa nú í fangelsi fyrir brot gegn löggjöf um hryðjuverk. Þeir voru þó aldrei sakaðir um að hafa skipulagt hryðjuverkaárás og var það staðfest af dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna þegar mennirnir voru sakfelldir fyrir brot sín.

Conway vakti nýlega athygli þegar hún sagði að lýsa mætti ummælum fjölmiðlafulltrúa Trump um að met hafi verið sett í fjölda áhorfenda við embættisvígslu Trumps sem „hliðstæðum staðreyndum.“

Sjá má umdeild ummæli Conway í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×