Fótbolti

Einn af þessum þremur verður kosinn besti leikmaður heims

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þrír bestu knattspyrnumenn heims.
Þrír bestu knattspyrnumenn heims. Vísir/Getty
FIFA hefur tilkynnt það hvaða þrír leikmenn koma til greina sem besti knattspyrnumaður heims í ár.

Valið að þessu sinni stendur á milli þeirra Lionel Messi, Cristiano Ronaldo og Antoine Griezmann. Þeir spila allir með spænskum liðum.

Lionel Messi og Cristiano Ronaldo hafa verið að skiptast á því að vinna titilinn besti knattspyrnumaður heims en Frakkinn Antoine Griezmann hafði betur í baráttunni við „hina“ um þriðja sætið á tilnefningalistanum.

23 leikmenn komu til greina en núna er búinn að skera niður í þrjá bestu menn heims. Sigurvegarinn verður síðan krýndur við viðhöfn í Zürich 9. Janúar næstkomandi.

Cristiano Ronaldo er sigurstranglegur enda lykilmaður hjá bæði Real Madrid og portúgalska landsliðinu sem unnu tvær stærstu keppnir UEFA á árinu. Real Madrid vann Meistaradeildina og Portúgal varð Evrópumeistari.

Lionel Messi hjálpaði Barcelona að vinna tvöfalt á Spáni og hann fór alla leið í úrslitaleik hundrað ára afmælisútgáfu Suður-Ameríkukeppninnar.

Antoine Griezmann varð markakóngur EM í Frakklandi og fór með liðum sínum í bæði úrslitaleik Meistaradeildarinnar (Atletico Madrid) og úrslitaleik EM (Frakkland).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×