Erlent

Einn af leiðtogum Al-Kaída drepinn í drónaárás Bandaríkjahers

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá loftárás á bíl hryðjuverkamanna í Idlib síðastliðið sumar.
Frá loftárás á bíl hryðjuverkamanna í Idlib síðastliðið sumar. vísir/getty
Abu al-Khayr al-Masri, einn af leiðtogum hryðjuverkasamtakanna Al-Kaída, var drepinn í drónaárás Bandaríkjahers á bíl í borginni Idlib í norðvesturhluta Sýrlandi í gær.

Frá þessu er greint á vef breska dagblaðsins Guardian en Masri hafði verið virkur í samtökunum í þrjá áratugi og var tengdasonur stofnanda þeirra, Osama bin Laden, sem drepinn var af bandarískum sérsveitarmönnum í Pakistan í maí 2011.

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna staðfesti í dag að það hefði gert árás í norðvestur Sýrlandi en ekkert var gefið upp um það hver eða hverjir voru skotmark hersins. Það hafa hins vegar leiðtogar annarra hryðjuverkahópa gert sem tengjast Al-Kaída og segja að Masri hafi verið drepinn í árásinni.

Haft er eftir Hashim al-Hashimi, sem ritað hefur mikið um hryðjuverkahópa í Mið-Austurlöndum, á vef Guardian að dauði Masri sé mikið áfall fyrir Al-Kaída og í raun ekkert minna áfall en dauði bin Laden var á sínum tíma.

„Hann er hugmyndafræðilegur leiðtogi samtakanna í Írak, Sýrlandi og Jemen og næstráðandi í samtökunum,“ segir Hashimi.

Árið 2005 var Masri skilgreindur sem hryðjuverkamaður af yfirvöldum í Bandaríkjunum og var hann þá sagður bera ábyrgð á samstarfi Al-Kaída við aðra hryðjuverkahópa. Þá er talið að hann hafi verið viðriðinn sprengjuárásir sem gerðar voru á bandarísku sendiráðin í Tansaníu og Kenýu árið 1998 þar sem 200 manns létust, aðallega óbreyttir borgarar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×