Skoðun

Einfalt val: nei við þjóðkirkju

Egill Óskarsson skrifar
Undanfarið hafa andstæðingar aðskilnaðar ríkis og kirkju skrifað þónokkrar greinar í tilefni komandi þjóðaratkvæðagreiðslu um mögulega upptöku nýrrar stjórnarskrár. Í atkvæðagreiðslunni gefst kjósendum tækifæri til að taka afstöðu til þess hvort í stjórnarskrá verði sérstakt ákvæði um þjóðkirkju. Samkvæmt stuðningsmönnum núverandi fyrirkomulags er spurningin um þjóðkirkjuákvæðið ógurlega flókin og þeir vilja meina að mikill misskilningur ríki um það hvers konar breytingar verið sé að leggja til.

Þessi spurning er hins vegar alls ekki flókin og það hverjar afleiðingar hennar verða er alveg ljóst. Þeir sem vilja viðhalda núverandi ástandi kjósa með því að sérstakt ákvæði um þjóðkirkju verði í stjórnarskrá. Þeir sem vilja aðskilnað ríkis og kirkju kjósa gegn slíku ákvæði. Það er um þrír fjórðu þjóðarinnar miðað við kannanir Capacent Gallup seinustu ár.

Það eitt og sér að losna við þjóðkirkjuákvæðið úr stjórnarskrá veldur ekki aðskilnaði ríkis og kirkju. Kirkjan hefur verið stofnanavædd of mikið seinustu áratugi til þess að það nægi. Það er hins vegar kristaltært að afnám þjóðkirkjuákvæðisins er fyrsta og stærsta skrefið í átt að aðskilnaði. Að sama skapi er ljóst að yrði slíkt ákvæði í nýrri stjórnarskrá væri hætt við að núverandi ástand, sem mikill meirihluti þjóðarinnar er á móti, viðhéldist lengi.

Það er leiðinlegt að sjá menn reyna að slá ryki í augu kjósenda. Spurningin sem liggur fyrir er einföld. Þjóðkirkjufyrirkomulagið á grundvöll sinn í stjórnarskránni. Standi vilji fólks til þess að ríki og kirkja verði aðskilin þá samþykkir fólk ekki þjóðkirkjuákvæði í nýrri stjórnarskrá.

Þeir sem telja eðlilegt að ríkið standi sérstakan vörð um velferð, völd og áhrif eins trúfélags, og mismuna þannig þeim sem ekki aðhyllast þær trúarskoðanir sem trúfélagið boðar, geta sagt já. Val okkar sem viljum að öll trúfélög standi á eigin fótum og viljum afnema forréttindastöðu þjóðkirkjunnar er einfalt; við segjum nei við ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×