Viðskipti innlent

Eigið fé OR hefur tvöfaldast

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur.
Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur.
Eigið fé Orkuveitu Reykjavikur hefur tvöfaldast frá árinu 2009 og nemur nú 83,5 milljörðum króna. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri fyrirtækisins sem staðfest var af stjórn og forstjóra í morgun. Hagnaður Orkuveitusamstæðunnar á fyrri helmingi ársins nam 3,8 milljörðum króna og rekstrar-hagnaður (EBIT) var 7,5 milljarðar króna. 

Sterkasti áhrifaþáttur fjárhagsáætlunar Orkuveitu Reykjavíkur  er Aðgerðaáætlun OR og eigenda – Planið – sem samþykkt var í mars 2011. Planið var gert til tæplega sex ára og gildir út árið 2016. Markmið þess var að skila samstæðunni liðlega 50 milljarða króna betri sjóðstöðu, fyrst og fremst með sparnaði í rekstri, en einnig með eignasölu, láni frá eigendum og auknum tekjum. Um mitt ár 2014, þegar tímabil Plansins var liðlega hálfnað, áttu aðgerðirnar að hafa skilað 39,8 milljörðum króna. Niðurstaðan er hinsvegar 46,4 milljarðar sem er 17% umfram markmið. Í tilkynningu frá Orkuveitunni segir að áfram verði unnið eftir Planinu til ársloka 2016.

Aðhald skilar árangri

Í tilkynningunni segir jafnframt að bætta afkomu Orkuveitunnar undanfarin ár megi ekki síst rekja til þess að tekist hefur að lækka útgjöld verulega að raungildi meðan tekjur hafa vaxið. Frá 2010 hafa tekjur á fyrri hluta árs vaxið um u.þ.b. 40%. Tveir áfangar við Hellisheiðarvirkjun hafa verið teknir í notkun á þessu tímabili.

Tekjur samstæðu Orkuveitunnar minnka frá fyrri hluta árs 2013 og er helsta ástæða þess lágt álverð, sem dregur úr tekjum af raforkusölu. Þá segir í tilkynningunni að álverð hefur hækkað nokkuð frá uppgjörsdegi og því sé ekki útilokað að tekjur af raforkusölu rétti úr kútnum áður en árið er úti. Verulegur árangur hafi náðst í að verja rekstur Orkuveitunnar fyrir sveiflum í álverði, vöxtum og gengi með samningum við erlendar fjármálastofnanir.


Mynd/AÐSEND





Fleiri fréttir

Sjá meira


×