Erlent

Eigendur Mossack Fonseca handteknir

Anton Egilsson skrifar
Mossack Fonseca er sagt tengjast umsvifamiklu mútu- og hneykslismáli.
Mossack Fonseca er sagt tengjast umsvifamiklu mútu- og hneykslismáli. Vísir/AFP
Jürgen Mossack og Ramon Fonseca, eigendur lögfræðistofunnar Mossack Fonseca, hafa verið handteknir í kjölfar húsleitar sem gerð var í húsnæði lögfræðistofunnar aðfaranótt föstudags. Er lögfræðistofan sögð tengjast umsvifamiklu mútu- og hneykslismáli. The Guardian greinir frá.

Það er Íslendingum eflaust í fersku minni þegar gögn frá Mossack Fonseca láku í apríl í fyrra og komu upp um fjölda manns sem fyrirtækið hafði aðstoðað við að fela fé í skattaskjólum.

Húsleit var gerð hjá lögfræðistofunni til að kanna meint tengsl þess við brasilíska verkfræðifyrirtækið Odebrecht. Odebrecht hefur viðurkennt að hafa mútað yfirvöldum og öðrum löndum til að fá hagstæða samninga á árunum 2010 til 2014. 

Taldir hafa falið mútugreiðslur

Kenia Porcell, ríkissaksóknari Panama, lýsti því yfir á blaðamannafundi á fimmtudag að gögn sem hún hefði undir höndum bentu eindregið til þess að Mossack Fonseca væru glæpasamtök sem stuðluðu að því að fela eignir og peninga sem aflað hefði verið með vafasömum hætti.

„Til að útskýra málið á einfaldan hátt þá er um ræða mútugreiðslur,“ bætti Porcell við.

Fonseca hefur þverneitað fyrir það að fyrirtækið tengist Odebrecht á nokkurn hátt. 

„Mossack Fonseca tengist Odebrecht ekki á nokkurn hátt,“ sagði Fonseca í samtali við fjölmiðla.


Tengdar fréttir

Húsleit hjá Mossack Fonseca

Húsleit var gerð í húsnæði lögfræðistofunnar Mossack Fonseca í Panama í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×