Enski boltinn

Eigandi Wigan baðst afsökunar á að segja að gyðingar elski peninga

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dave Whelan móðgaði gyðinga.
Dave Whelan móðgaði gyðinga. vísir/getty
Mikið hefur gengið á í herbúðum enska B-deildarliðsins Wigan undanfarna daga eftir að eigandi og stjórnarformaður félagsins, Dave Whelan, ákvað að ráða Malky Mackay sem knattspyrnustjóra þess.

Mackay komst í fréttirnar fyrr á þessu ári þegar fjöldi sms-skilaboða milli hans og aðstoðarmanns hans rötuðu í blöðin. Þar notuðu þeir afskaplega ljótt orðbragð um gyðinga, kínverja og konur svo dæmi séu tekin.

Eldhústækjaframleiðandinn Premium Range, einn af styrktaraðilum Wigan, var fljótur að yfirgefa skútuna þegar Whelan ákvað að ráða Mackay, en öll spjót hafa staðið að eigandanum síðan hann tók ákvörðunina um að ráða Skotann.

Whelan reyndi að verja knattspyrnustjórann sinn í viðtali við The Guardian en kom sjálfum sér í mikil vandræði þegar hann talaði um ummæli Mackays í garð gyðinga.

Mackay sagði við aðstoðarmann sinn að umboðsmaðurinn Phil Smith væri gyðingur og þeim fyndist nú fátt leiðinlegra en að verða af peningum. Þá var Smith að reyna að selja Mackay leikmann til Cardiff.

Whelan kom Mackay til varnar með því að segja meðal annars: „Gyðingar elta uppi peninga eins og allir aðrir. Mér finnst þetta ekkert dónalegt að segja.“

Samtök gyðinga á Englandi voru ekki alveg sammála Whelan og gagnrýndu hann harðlega. Það varð til þess að Whelan baðst afsökunar í viðtali við Sky Sports í gær.

„Fyrst og fremst myndi ég aldrei móðga gyðinga. Ég á hundruði vina sem eru gyðingar og ég ber mikla virðingu fyrir þeim. Ég ætlaði mér ekki að móðga neinn og biðst innilegrar afsökunar ef einhver tók þessu illa. Það var aldrei ætlunin að særa neinn,“ sagði Dave Whelan




Fleiri fréttir

Sjá meira


×