Erlent

Eiffelturninum lokað í sex tíma

Atli Ísleifsson skrifar
Um sjö milljónir manna leggja leið sína í Eiffel-turninn á ári hverju.
Um sjö milljónir manna leggja leið sína í Eiffel-turninn á ári hverju. Vísir/AFP
Loka varð Eiffelturninum í París í sex tíma fyrr í dag eftir að starfsfólk lagði niður störf um miðjan dag. Ástæða vinnustöðvunarinnar voru mótmæli starfsmanna turnsins vegna gríðarlegrar aukningar vasaþjófa í og í kringum turninn.

Starfsfólk segir gengi smáglæpamanna reglulega hafa í hótunum gegn gestum og starfsfólki og fer það nú fram á að stjórnendur tryggi það að brugðist verði við þeim fjölda vasaþjófa sem beina spjótum sínum gegn ferðamönnum. Fara þeir fram á að lögreglumönnum verði fjölgað við turninn.

Talsmaður rekstraraðila turnsins þakkaði Parísarbúum og ferðamönnum fyrir þann skilning sem þeir sýndu vegna lokunarinnar og sagðist þykja miður að verið væri að refsa gestum.

Sambærileg lokun varð í Louvre-safninu í borginni í apríl 2013 þegar starfsfólk kvartaði undan því að vasaþjófar hræktu á það, hreyttu ókvæðisorðum í átt að því og réðust jafnvel á það. Lögreglumönnum var fjölgað við Louvre í kjölfar vinnustöðvunarinnar.

Um 22 milljónir ferðamanna sóttu Parísarborg heim á síðasta ári, en að jafnaði leggja um sjö milljónir manna leið sína í Eiffel-turninn á ári hverju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×