Enski boltinn

Eiður Smári um Harry Kane: Sá ekki þessa hæfileika þegar ég æfði með honum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Smári æfði með Harry Kane fyrir fimm árum.
Eiður Smári æfði með Harry Kane fyrir fimm árum. vísir/getty
Eiður Smári Guðjohnsen, markahæsti leikmaður íslenska karlalandsliðsins frá upphafi, viðurkennir að hann bjóst ekki við að Harry Kane, framherji Tottenham, yrði jafngóður og raun ber vitni.

Eiður Smári æfði með Kane fyrir fimm árum síðan þegar hann var í nokkra mánuði á láni hjá Tottenham frá Monaco í Frakklandi.

Honum fannst ekki mikið til unga Englendingsins koma á þeim tíma en finnst hann frábær í dag og segir hann stórkostlegur að klára færin sín fyrir framan markið.

„Hann var 16 eða 17 þegar ég var hjá Tottenham. Hann æfði með aðalliðinu nokkrum sinnum,“ sagði Eiður Smári um Kane í myndveri Sky Sports á Stamford Bridge á sunnudaginn þar sem hann var fenginn sem sérfræðingur á leik Chelsea og Crystal Palace.

„Ég skal vera heiðarlegur. Ég sá ekki þá að yrði sá leikmaður sem hann er í dag. Ég sá bara ekki þessa náttúrlegu hæfileika.“

„Nokkrum árum síðar sjáum við leikmann sem leggur mikið á sig, klárar færin sín stórkostlega og hefur vilja til að skora mörk,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen.

Harry Kane hefur farið á kostum á leiktíðinni og skoraði 20 mörk í 31 leik auk þess sem hann hefur skapað 31 marktækifæri fyrir liðsfélaga sína.

Hann var kjörinn besti ungi leikmaður deildarinnar af kollegum sínum á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×