Fótbolti

Eiður Smári: Lars og Heimir ofarlega á mínum lista fyrir það sem þeir hafa gert

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen fékk ótal spurningar um fyrrverandi þjálfara sína Pep Guardiola og José Mourinho á blaðamannafundi íslenska landsliðsins í Annecy í dag.

Pep og Mourinho verða báðir í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð en Eiður hafði lítinn áhuga á að tala um þessa ágætu menn á meðan hann er á stórmóti með Íslandi. Hann sagði þá aftur á móti tvo af bestu þjálfurum sem hann hefur starfað undir.

Aðspurður aftur á móti hvar Lars Lagerbäck, sem kveður íslenska landsliðið eftir EM, væri á hans lista sagði Eiður Smári:„Lars er mjög ofarlega á þeim lista. Það sem hann og Heimir hafa gert fyrir íslenska liðið og íslenska knattspyrnu er að koma fram hér á þessu móti.“

Eiður sagðist ekki nenna því að tala um alla þjálfara sem hann hefur verið með á sínum langa ferli en bætti þó við: „Þeir eru báðir mjög ofarlega fyrir þau áhrif sem þeir hafa haft á íslenska knattspyrnu. Mjög ofarlega.“

Sænskur blaðamaður fékk lokaspurningu fundarins og spurði Eið Smára hvað Lars Lagerbäck hefði komið með inn í íslenska liðið.

„Fyrst og fremst skipulag bæði um hvernig liðið á að haga sér utan vallar og spila innan vallar. Uppáhaldsorðið hans er jafnvægi. Jafnvægið í hópnum og starfsliðinu virðist vera fullkomið,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×