Fótbolti

Eiður og félagar í 2. sæti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eiður var valinn í lokahóp íslenska landsliðsins sem fer á EM í Frakklandi í næsta mánuði.
Eiður var valinn í lokahóp íslenska landsliðsins sem fer á EM í Frakklandi í næsta mánuði. vísir/valli
Eiður Smári Guðjohnsen kom inn á sem varamaður þegar Molde vann 4-2 sigur á Strömsgodset á heimavelli í norsku úrvalsdeildinni í kvöld. Molde er í 2. sæti deildarinnar, stigi á eftir toppliði Rosenborg.

Ole Gunnar Solskjaer skipti Eiði inn á í stöðunni 3-0 á 61. mínútu. Mínútu síðar minnkuðu gestirnir muninn en Molde svaraði að bragði, komst í 4-1 og þá var björninn unninn. Strömsgodset lagaði stöðuna á 81. mínútu en það breytti engu um úrslitin.

Lærisveinar Rúnars Kristinssonar í Lilleström unnu góðan 1-0 sigur á Brann á heimavelli. Erling Knudtzon skoraði eina mark leiksins á markamínútunni, þeirri fertugustuogþriðju.

Árni Vilhjálmsson sat allan tímann á varamannabekknum hjá Lilleström sem er í 7. sæti deildarinnar með 16 stig.

Hannes Þór Halldórsson hélt marki sínu hreinu þegar Bodö/Glimt mætti Vålerenga. Lokatölur 0-0.

Bæði lið eru í neðri hluta deildarinnar; Vålerenga í 11. sæti með 10 stig og Bodö/Glimt með átta stig í 13. sæti.

Elías Már Ómarsson kom inn á sem varamaður hjá Vålerenga á 54. mínútu.

Leiðrétting:

Í upprunalegri útgáfu fréttarinnar stóð að Eiður Smári hefði komið inn á í stöðunni 2-1 fyrir Molde og liðið hafi skorað tvö mörk á næstu tveimur mínútum. Það er ekki rétt og hefur verið leiðrétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×