Enski boltinn

Eiður lagði upp mark fyrir Heskey í sigurleik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Smári gerir það gott með Bolton á ný.
Eiður Smári gerir það gott með Bolton á ný. vísir/getty
Bolton er á miklum skriði í ensku B-deildinni í fótbolta, en liðið er búið að vinna tvo leiki og gera eitt jafntefli síðan það samdi við Eið Smára Guðjohnsen.

Bolton vann flottan heimasigur á Blackburn í dag, 2-1, eftir að lenda marki undir á 41. mínútu, en það skoraði Norðmaðurinn Joshua King.

Í seinni hálfleik jafnaði varamaðurinn Emile Heskey metin í sínum fyrsta leik á 59. mínútu, en hann fékk samning hjá liðinu í jólagjöf.

Það var enginn annar en Eiður Smári sem lagði upp markið fyrir Heskey, en saman eru þeir 72 ára gamlir.

Darren Pratley, miðjumaður Bolton, tryggði heimamönnum svo öll stigi með öðru marki liðsins þremur mínútum seinna. Bolton að færast upp töfluna eftir komu Eiðs Smára.

Kári Árnason og félagar í Rotherham náðu líka í gott stig gegn Huddersfield á heimavelli í dag, en þeir lentu 2-0 undir á fyrsta klukkutímanum.

Heimamenn skoruðu tvö mörk á síðustu mínútum leiksins og tryggðu sér eitt stig, en Kári Árnason var í byrjunarliðinu og spilaði allan leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×