Innlent

Efnahagsbrot undir héraðssaksóknara

Við Skúlagötu. Nýtt embætti kemur til með að taka við af Embætti sérstaks saksóknara.
Við Skúlagötu. Nýtt embætti kemur til með að taka við af Embætti sérstaks saksóknara. fréttablaðið/ernir
Vinna dómsmálaráðherra við frumvarp um framtíðarskipan við meðferð efnahagsmála er langt komin.

Í minnisblaði sem starfshópur á vegum innanríkisráðuneytisins hefur unnið er gert ráð fyrir stofnun embættis héraðssaksóknara sem fari með efnahagsbrotamál. Frumvarpið er ekki fullmótað og óvíst hvort það verði að lögum fyrir áramót. Fréttablaðið hefur óskað eftir því að fá afrit af minnisblaðinu. Innanríkisráðuneytið hefur synjað þeirri beiðni og hefur sú synjun verið kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst er vinna starfshópsins byggð á skýrslu innanríkisráðherra um skipulag og tilhögun rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotamálum. Innanríkisráðherra kynnti þá skýrslu fyrir Alþingi í janúar. Þar voru nefndar tvær meginleiðir sem lagt er til að verði farnar.

Annars vegar að sett verði á stofn ný rannsókna- og ákærustofnun. Peningaþvættisskrifstofa verði færð frá ríkislögreglustjóra til þessarar nýju stofnunar, sem reist yrði á grunni sérstaks saksóknara. Stofnunin annist rannsóknir alvarlegra efnahagsbrota og fari jafnframt með ákæruvald á lægra ákæruvaldsstigi, eða eftir atvikum milliákæruvaldsstigi.

Hins vegar að sett verði á stofn ný rannsókna- og ákærustofnun sem sameini verkefni sérstaks saksóknara, skattrannsóknarstjóra og eftir atvikum verkefni sem varða málshöfðanir ríkissaksóknara. Peningaþvættisskrifstofa verði færð frá ríkislögreglustjóra til þessarar nýju stofnunar. Um yrði að ræða tveggja eða eftir atvikum þriggja stoða stofnun sem fari með rannsóknir og ákæruvald í öllum skattalaga- og efnahagsbrotamálum. Undir þriðju stoð þessarar stofnunar myndi eftir atvikum heyra málshöfðun í sakamálum sem ríkissaksóknari annast nú. Þessi stofnun færi með ákæruvald á lægra ákæruvaldsstigi eða á milliákærustigi.

Allt frá því að lög um meðferð sakamála tóku gildi 1. janúar 2009 hefur verið gert ráð fyrir að embætti héraðssaksóknara yrði nýtt stjórnsýslustig innan ákæruvaldsins. Því hefur ítrekað verið frestað og nú liggur fyrir þinginu frumvarp frá dómsmálaráðherra um að fresta stofnun þess embættis til 1. janúar 2016.

Í fjárlögum næsta árs er gert ráð fyrir að sérstakur saksóknari starfi áfram en framlög til embættisins fari úr 560 milljónum króna í 290.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×